Skert viðbragðsgeta á Vestfjörðum

Kobbi Láka sökk 8. febrúar síðastliðinn. Erfiðlega hefur gengið að …
Kobbi Láka sökk 8. febrúar síðastliðinn. Erfiðlega hefur gengið að útvega nýjanvegna mikilla verðhækkana. Ljósmynd/Björgunarsveitin Ernir

Enn hefur ekki tekist að finna björgunarbát til að taka við verkefnum björgunarbátsins Kobba Láka á Bolungarvík, en báturinn sökk í illviðri 8. febrúar síðastliðinn er hann var bundinn við bryggju. Viðbragðsgeta á Vestfjörðum er því skert en umferð á sjó á svæðinu eykst einmitt á vorin og nær hámarki á sumrin.

Í kjölfar tjónsins var sett markmið um að finna notaðan björgunarbát, en það var hægara sagt en gert. „Notaði markaðurinn er mjög erfiður núna,“ útskýrir Örn Smárason, verkefnastjóri sjóbjörgunar hjá Slysavarnafélaginu Landsbjörg.

Örn Smárason, verkefnastjóri sjóbjörgunar.
Örn Smárason, verkefnastjóri sjóbjörgunar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hann segir hækkun álverðs um 40% á skömmum tíma hafi haft mikil áhrif þar sem mikið af áli er nýtt í báta af þessum stærðum. Vekur hann athygli á að í vetur hafi verið komið auga á notaðan bát í eigu norska björgunarfélagsins Redningsselskapet, en að verðið hafi þá verið 950 þúsund norskar krónur eða um 13,5 milljónir íslenskra króna. Þegar átti hins vegar að ganga til kaupa á bátnum var verðið skyndilega orðið 1.750 þúsund norskar krónur eða 24,7 milljónir íslenskra króna.

Þá hafa verið skoðaðir notaðir finnskir björgunarbátar en þeir eru jafnvel dýrari en þeir norsku, segir Örn. „Björgunarsveitin Ernir hefur fengið Kobba Láka bættan, enda altjón. Það virðist samt einhver áhugi á skelinni og vonandi slær sala á henni aðeins á þetta högg.“

Þurfa fjölbreyttar bjargir

Ekki er vitað hvenær hægt verður að tryggja nýjan bát og hefur komið til skoðunar að tímabundið taka í notkun eldri bát frá Vestmananeyjum þegar nýr bátur fæst þangað.

Örn viðurkennir að viðbragðsgetan verður skert þar til einhver lausn er fundin í málinu. „Við erum að leita allra leiða. Því miður er það staðan og það er mikil sjósókn og mikill fjöldi ferðamanna á svæðinu á sumrin. Á þessu svæði eru 25 til 40 aðgerðir á sjó á hverju ári og þurfa að vera fjölbreyttar bjargir eins og Kobbi Láka sem var mjög hraðskreiður bátur.“

Bendir hann á útkall á svæðinu á mánudag máli sínu til stuðnings, en þá var töluverður viðbúnaður hjá Landhelgisgæslu og björgunarsveitum á norðanverðum Vestfjörðum vegna frístundaveiðibáts með sex um borð sem ekki náðist sambandi við. Loks tókst að ná sambandi við bátinn er hann var á siglingu inn Önundarfjörð. „Svona útköll eru mjög algeng á þessu svæði.“

Björgunarbáturinn Kobbi Láka hafði, þegar hann sökk, verið í þjónustu Ernis frá 2019 þegar báturinn var keyptur af björgunarsveitinni Ársæli í Reykjavík. Báturinn var smíðaður 1998 hjá Holen Mekaniske Verksted í Noregi og yfirfarinn 2005.

Lengd bátsins var 9,65 metrar og breiddin 3,6 metrar en djúprista er 0,65 metrar. Um borð voru tvær Yanmar 338 kílóvatta vélar með jet-skrúfubúnaði, drægni um 120 sjómílur. Þá var Kobbi Láka útbúinn sjó- og brunadælum sem dæla 400 lítrum á mínútu, dráttartógi og öflugum siglingatækjum.

Kobbi Láka þótti henta vel þar sem hann var hraðskreiður.
Kobbi Láka þótti henta vel þar sem hann var hraðskreiður. Ljósmynd/Björgunarsveitin Ernir
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert