Stolt af því að Tómas sé þingmaður Flokks fólksins

Inga Sæland, formaður Flokk fólksins.
Inga Sæland, formaður Flokk fólksins. mbl.is/Kristinn Magnússon

Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, segist hafa óbeit á því orðfæri sem Tómas A. Tómasson notaðist við í þeim sms-samskiptum sem Tómas birti á Twitter aðgang sínum í dag.

Tekur Inga þó fram að þau séu stolt af því að Tómas sé þingmaður Flokks fólksins og að mati hennar kemur það hvorki henni né öðrum við með hverjum Tómas sængi.

Mynd af umræddum sms-samskiptum fóru í dreifingu á samfélagsmiðlum í dag en fjallað hefur verið um málið á mbl.is. 

Í samtali við mbl.is staðfesti Inga að meðlimir Flokks fólksins hafi lokið að funda um mál Tómasar. Segir hún flokkinn standa við bakið á sínum þingmanni þótt að henni finnist þetta heldur ljótt orðfar.

„Hann er þingmaður Flokks fólksins og við erum stolt af því. Við ætlum ekki að skipta okkur að því með hverjum fólk sængar.“ 

Ekkert athugavert við aldursmuninn

Aðspurð hvort hún setji aðeins út á þá orðræðu sem eigi sér stað í samskiptunum en ekki þá gjörð sem rætt er um segir Inga ekkert vita um það sem átti sér stað þarna á milli Tómasar og kvennanna sem hann vísar til. 

„Ég veit ekkert hvað átti sér stað þarna nema bara það að hann hafi sofið hjá konu, ég veit ekki meir.“ 

Spurð um aldursmuninn á milli Tómasar og konunnar sem hann vísar til í sms-samskiptunum sem 26 ára segir Inga ekki sjá neitt varhugavert við það.

„Það geta verið allt í 30, 40, 50 ár á milli hjóna og það er ekki eitthvað sem ég skipti mér að heldur. Ég ætla ekki að skipta mér að því að 26 ára kona velji það að sænga hjá 64 ára gömlum manni.“

Tekur Inga fram að um sé að ræða átta ára orðfar og þar að auki sé um að ræða trúnaðartal tveggja vina. 

Svart og hvítt miðað við Klaustursmálið

Segir Inga að þetta tiltekna mál eigi ekkert sameiginlegt með Klaustursmálinu þar sem nokkrir þingmenn Flokks fólksins voru uppvísir að ljótri orðræðu og voru í kjölfarið vísað úr flokknum. 

„Þetta er bara svart og hvítt, við erum annars að tala um meðlimi flokksins sem töluðu illa um allt og alla og sem að sviku okkur. Tómas A. Tómasson, kallaður Tommi, hallar aldrei orði að neinum manni,“ segir Inga og bætir við að henni finnist það bjánalegt ef einhver reynir að líkja þessu saman.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert