Ólöf Helga Adolfsdóttir, ritari Eflingar og fyrrverandi varaformaður, er leið og í sjokki yfir niðurstöðu félagsfundar Eflingar í gær. Þar var tillaga um að draga hópuppsögn á skrifstofu Eflingar til baka felld með 152 atkvæðum gegn 106.
„Ég er leið og pínu í sjokki, aðallega yfir því hvaða afstöðu fólk hefur til annars launafólks. Það kom skýrt fram að sumir er tilbúnir að selja hvað sem er, til dæmis atvinnuöryggi fyrir ekki neitt, bara til þess að rífa aðra niður,“ segir Ólöf í samtali við mbl.is.
Hún bendir á að rökin fyrir hópuppsöginni séu skipulagsbreytingar og jafnlaunavottun en vinna við að koma henni á hafi verið langt komin á skrifstofunni.
„Ef Sólveig hefði mætt á skrifstofuna, þá hefði hún haft allar þessar upplýsingar,“ segir Ólöf sem veit ekki til þess að Sólveig hafi mætt á skrifstofuna frá því að hún var kjörin formaður.
„Það var enginn möguleiki á því að upplýsa hana um það sem búið var að gera. Alla þá vinnu sem var búið að vinna. Þetta með jafnlaunavottunina, við vorum mjög langt komin með það og starfsmenn vissu vel að það stæði til að breyta launakerfinu.“
Þá þótti Ólöfu hræðilegt að Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, skyldi gera athugasemd við það á fundinum að starfsfólk sem skilað hefði inn langtímaveikindavottorði sæi sér fært að mæta.
„Það er bara vítavert að mínu mati. Þetta er eitthvað sem við vitum að atvinnurekendur mega ekki gera, athugasemd við það hvað starfsfólkið er að gera þegar það er í veikindum.“
Ólöf segist sjálf hafa verið veik, einstæð móðir, og þurft að fara út í búð og sinna ýmsu þrátt fyrir veikindin. „Mitt líf heldur áfram þó ég sé veik. Þó ég sé föst í rúmi þá þarf ég samt að hugsa um fjölskylduna mína,“ útskýrir hún.
„Það að þetta starfsfólk hafi talið brýnt að mæta á þennan fund þrátt fyrir að vera með vottorð frá lækni fyrir því að eiga ekki að mæta í vinnuna, er bara mjög skiljanlegt. Þetta er eitthvað sem þau eiga rétt á að gera.“
Á fundinum sakaði Sólveig Ólöfu og Agnieszku Ewu Ziólowska um að hafa lekið upplýsingum um hópuppsögnina í fjölmiðla, en Ólöf neitar þeim ásökunum. „Ég hefði haldið að þetta væri mjög alvarleg ásökun og ég mun skoða það.“