Alls 87.048 skotvopn skráð hérlendis

Langflest skotvopna eru notaðar til veiða og skotíþrótta.
Langflest skotvopna eru notaðar til veiða og skotíþrótta. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þann 1. janúar voru alls 76.680 vopn skráð í notkun eiganda hér á landi á 36.548 einstaklinga.

Þetta kemur fram í svari Jóns Gunnarssonar dómsmálaráðherra við fyrirspurn Andrésar Inga Jónssonar, þingmanns Pírata, á Alþingi um skotvopnaeign, innflutning skotvopna og framleiðslu.

Ef óvirk, förguð, týnd, haldlögð og útflutt skotvopn eru talin með auk skotvopna lögreglu og lagerar verslana eru skráð vopn hér á landi 87.048.

Þeir 20 einstaklingar sem eiga flest skotvopn eru 19 karlar og ein kona og eiga þau samanlagt 2.052 vopn eða að meðaltali 103 vopn hvert.

Í svarinu segir að frá árinu 2012 til 2016 var fjöldi innfluttra vopna á bilinu 1.300 til 1.500 á ári en frá árinu 2017 hafa verið flutt inn 2.200 til 2.600 skotvopn á ári.

Rétt er að taka fram að það heyrir til undantekninga ef einstaklingar flytja sjálfir inn skotvopn, innflytjendur eru nær eingöngu verslanir sem síðan selja vopnin til einstaklinga. Þeir eru síðan skráðir eigendur innfluttu vopnanna,“ segir í svarinu. 

Karlar tæplega 96% eiganda 

Karlar eru skráðir eigendur flestra innfluttra skotvopna, en á tímabilinu 2012 til 2021 voru á bilinu 22 til 69 konur skráðar eigendur innfluttra skotvopna á ári og eru þær um 3 til 4% af heildarfjölda skráðra eigenda vopna.

Á síðasta ári var mest um að skotvopnin voru notuð til veiða og skotíþrótta. Þá er einnig mikið um safnbyssur. 

Aukning á sjálfvirkum rifflum

Á árunum 2012–2018 voru engin sjálfvirk vopn flutt til landsins á grundvelli söfnunarleyfis.

Árið 2021 voru fluttir til landsins 197 sjálfvirkir rifflar á grundvelli söfnunarleyfis. 131 riffill er enn í eigu verslana. 66 rifflar eru í eigu karla og eru ætlaðir til söfnunar.

Skilyrðin til þess að skotvopn teljist sem söfnunargripur er að vopnið hafi verið framleitt fyrir lok seinni heimsstyrjaldar.

Þá segir að lögin og reglugerðin varðandi sjálfvirka riffla eru til skoðunar hjá dómsmálaráðuneytinu og stendur til að leggja fram frumvarp um breytingar á vopnalögum næsta haust.

Eitt þrívíddarprentað vopn

Andrés Ingi spyr einnig hversu mörg vopn lögregla hefur haldlagt sem framleidd voru með þrívíddarprentun og er svarið eitt. 

Tilurð þessa eina vopns er til rannsóknar. Grunsemdir eru uppi um að slík vopn hafi verið framleidd á Íslandi en þess ber að geta að fæstir þrívíddarprentarar ráða við framleiðslu slíkra muna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert