Allt að 40% heimilislækna upplifa einkenni kulnunar

Mikið álag er á starfsfólki. Biðtími hjá læknum lengist.
Mikið álag er á starfsfólki. Biðtími hjá læknum lengist. mbl.is/Árni Sæberg

„Við höfum ekki mannskap til að taka á móti auknu álagi og það eru þreytumerki í hópnum,“ segir Margrét Ólafía Tómasdóttir, formaður Félags íslenskra heimilislækna. Hún segir að álagið sé farið að bitna á læknum og öðru starfsfólki.

„Við gerðum nýlega könnun meðal lækna sem starfa hjá heilsugæslunni á landsvísu, bæði sérfræðinga og sérnámslækna. Niðurstöðurnar sýndu að hátt í 40% upplifa mjög oft kulnunareinkenni og 25% hafa íhugað alvarlega að fara í veikindaleyfi. Þessar niðurstöður eru mikið áhyggjuefni. Það er alls ekki gott að keyra fólk í gegnum sérnám undir svona álagi. Ég er hrædd um að við missum eitthvað af þessu fólki frá okkur ef ástandið fer ekki að lagast,“ segir Margrét en mikil þörf er á endurnýjun í stétt heimilislækna.

Stéttin sé í lægð eftir að hafa nýlega misst út stóran hóp lækna sem hættu fyrir aldurs sakir. Tekist hafi að fjölga læknum sem sérhæfa sig í heimilislækningum en nokkur ár eru þangað til þeir skila sér að fullu til starfa. Aukið álag á heilsugæsluna birtist í því að löng bið getur verið eftir tímum hjá heimilislæknum. Algengt er að fólk þurfi að bíða vikum saman. „Ég á sjálf næst lausan tíma í júlí,“ segir Margrét.

Hún segir að öllum bráðatilfellum sé sinnt og til þess að það sé unnt þurfi læknar að vera til taks. „Ef við erum að sinna bráðaþjónustu fækkar bókuðum tímum á móti. Þörfin á þjónustu minnkar auðvitað ekkert og fyrir vikið hringja margir í hjúkrunarfræðinga og hafa samband í gegnum Heilsuveru. Þetta skapar allskonar flækjur því þeir læknar sem eru á dagvakt á heilsugæslunni taka líka kvöldvaktir á Læknavaktinni. Því meira álag sem er á daginn, þeim mun færri fást á kvöldvaktirnar og því er oft tæp mönnun á Læknavaktinni.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert