Níðstöng með haus af hrossi hefur verið reist við Skrauthóla nærri Esjurótum. DV greindi fyrst frá. Myndirnar sem hér eru að neðan eru ekki fyrir viðkvæma.
Málið er á borði lögreglu en í munni dýrsins var upprúllað blað með einhvers konar bölvun, sem skrifuð var á íslensku.
Að Skrauthólum 4 er nú komið saman einhvers konar „andlegt samfélag“ sem kallar sig Sólsetur, en um tólf manns búa á jörðinni í yfirgefnum strætisvögnum.
Auglýsing fyrir samkomu á vegum hópsins vakti á dögunum mikla athygli sem og gagnrýni, þar sem af henni mátti ráða að börn væru boðin velkomin á mannfagnað þar sem ást og erótík yrðu könnuð og ofskynjunarlyf væru í boði.
Þegar stofnandi Sólsetursins, Linda Mjöll Stefánsdóttir, frétti af níðstönginni sagði hún að hún teldi að stöngin beindist að sér. Hún hafi fengið ljót skilaboð á netinu í kjölfar samkomunnar umdeildu og skemmdarverk hafi verið unnin á jörðinni.
Guðni Halldórsson, formaður Landssambands hestamannafélaga, sem býr á Skrauthólum 2 telur hins vegar að níðstönginni sé beint gegn sér en hann og eiginkona hans, Kristjana Þórarinsdóttir, hafa gagnrýnt starfsemi nágranna sinna og telja að níðið sé upprunnið frá einhverjum tengdum Sólsetri.