Leikskólabörn í Furuskógi flutt vegna myglu

Leikskólinn Furuskógur stendur við Áland í Fossvogi.
Leikskólinn Furuskógur stendur við Áland í Fossvogi. mbl.is

Öll starfsemi á leikskólanum Furuskógi við Áland í Reykjavík verður flutt tímabundið í gamla Safamýrarskóla í byrjun maí vegna framkvæmda sem framundan eru vegna rakaskemmda og myglu í húsnæðinu. Greint var frá flutningunum á foreldrafundi á leikskólanum í morgun. Helgi Grímsson, sviðstjóri skóla- og frístundasviðs, staðfestir þetta í samtali við mbl.is.

Fram kom á fundinum að börn og starfsfólk hefðu fundið fyrir einkennum vegna myglunnar og glímt við veikindi og foreldrar voru ósáttir við að skýrsla um stöðu húsnæðisins hafi ekki verið gerð aðgengileg strax. Samkvæmt heimildum mbl.is kom fram í henni að svartmygla hefði fundist í húsnæðinu.

Þrif báru engan árangur

Í lok febrúar barst foreldrum póstur um að farið yrði í allsherjarþrif á húsnæðinu vegna vegna gruns um myglu, en áður hafði starfsfólk óskað eftir því að gæði innvistar yrði könnuð. Eftir þrifin voru tekin kjarnasýni á völdum stöðum sem leiddu í ljós að þrif hefðu engan árangur borið og myglan enn til staðar. Þá var ljóst að ráðast þyrfti í frekari aðgerðir til að uppræta mygluna.

Framkvæmdir eru þegar hafnar við leikskólann og hugmyndir voru uppi um að færa hluta af starfseminni í gáma meðan á þeim stæði. Það gekk hins vegar ekki upp. Hefur því verið gripið til þess ráðs að færa alla starfsemi tímabundið í Safamýrarskóla.

Verið að aðlaga húsnæðið að leikskólastarfsemi

Safamýrarskóli hefur áður verið notaður sem tímanbundið úrræði fyrir leikskólastarfsemi, en starfsemi Kvistaborgar var flutt þangað síðasta haust vegna sambærilegra framkvæmda.

„Við erum að breyta Safamýrarskóla í leikskóla og við höfum náð að nýta húsnæðið fyrir leikskóla sem hafa verið í vandræðum út af húsnæðismálum. Þetta er að verða einn af leikskólum Reykjavíkurborgar á komandi mánuðum,“ segir Helgi.

Aðspurður hvort húsnæðið sé útbúið sem leikskólahúsnæði, segir hann verið að byrja að aðlaga það þannig og miklar breytingar séu í gangi. „Það er allavega hluti af húsnæðinu sem við nýtum í leikskóla og menn voru ánægðir með það.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert