„Óviðeigandi reikningsgerð“ heilbrigðisþjónustu

Sjúkratryggingar Íslands.
Sjúkratryggingar Íslands. mbl.is/Sigurður Bogi

Sjúkratryggingar Íslands segja sjúklinga sem njóta greiðsluþátttöku stofnunarinnar ekki eiga að bera fjárhagslegt tjón vegna „óviðeigandi reikningsgerðar“ veitenda heilbrigðisþjónustu.

Í tilkynningu frá stofnuninni segir: „Tiltekinn veitandi heilbrigðisþjónustu hefur síðustu daga haft samband við skjólstæðinga sína vegna bréfs sem Sjúkratryggingar sendu honum um mögulega endurkröfu í kjölfar eftirlits stofnunarinnar með reikningsgerð hans.“

Sjúklingar í góðri trú um að fá greiðslu

Sjúkratryggingar Íslands segja að aðilinn hafi upplýst þá sem höfðu þegið umrædda þjónustu í góðri trú um greiðsluþátttöku Sjúkratrygginga og tilkynnt þeim að ef til þess kæmi að hann þyrfi að endurgreiða Sjúkratryggingum þá mundi hann senda viðkomandi sjúklingum reikning fyrir endurgreiðslunni.

„Sjúkratryggingar vilja af þessum sökum árétta að eftirlit stofnunarinnar beinist að þeim sem þiggja greiðslur fyrir hana en ekki að þeim sem þjónustuna þiggja.“

Engin fordæmi um sambærileg mál

Í tilkynningunni segir SÍ í raun engin fordæmi þess að þjónustuveitandi rukki til sjúklinga þær upphæðir sem hann hafi ofrukkað Sjúkratryggingar.

„Umrætt eftirlitsmál er enn í ferli milli Sjúkratrygginga og viðkomandi þjónustuveitenda og stofnunin skorar á hann að láta það ekki bitna á sjúklingum, komi til þess að gerð verði endurkrafa á hendur honum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert