Fyrstu íslensku Styrkleikarnir hófust í dag

Fyrstu Styrkleikar Krabbameinsfélags Íslands hófust í dag.
Fyrstu Styrkleikar Krabbameinsfélags Íslands hófust í dag. Ljósmynd/Olga Björt Þórðardóttir

Fyrstu Styrkleikar Krabbameinsfélags Íslands hófust í dag á Selfossi og standa yfir til hádegis á morgun, sunnudag. Um er að ræða alþjóðlegan viðburð sem fer árlega fram á yfir 5.000 stöðum í meira en 30 löndum á heimsvísu.

Styrkleikarnir eru fjölskylduviðburður sem snúast um að styðja, heiðra eða minnast þeirra sem hafa fengið krabbamein, að því er segir í tilkynningu frá Krabbameinsfélaginu. Það að leikarnir standi yfir í heilan sólarhring er tákn um að það fáist engin hvíld frá krabbameini.

Eva Íris Eyjólfsdóttir, verkefnastjóri Styrkleikanna, segir afar ánægjulegt að sjá hversu margir séu að taka þátt en um 250 manns höfðu skráð sig í 16 liðum við setningu leikanna og að sífellt bætist í hópinn.

Styrkleikarnir fara þannig fram að liðin skiptast á að halda boðhlaupskefli gangandi í sólarhring. Dagskráin nær hámarki með ljósastund sem verður haldin kl. 22 í kvöld þar sem kveikt er á kertum í sérútbúnum pokum sem þátttakendur hafa skreytt og skrifað hugleiðingar eða kveðjur á.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert