Hjartasteinn í minningu Guðrúnar Helgadóttur

Nánasta fjölskylda Guðrúnar var viðstödd afhjúpun hjartasteinsins.
Nánasta fjölskylda Guðrúnar var viðstödd afhjúpun hjartasteinsins. Ljósmynd/Aðsend

Hjartasteinn í minningu Guðrúnar Helgadóttur var í dag afhjúpaður fyrir framan Bæjarbíó í Hafnarfirði. Guðrún lést 23. mars, 86 ára að aldri en hún fæddist í Hafnarfirði 7. september 1935.

Í tilkynningu frá Bæjarbíói segir að hugmynd að fallegum virðingarvotti og minnisvarða hafi kviknað fyrst í samtali við rithöfundinn í kjölfar þess að hún var heiðruð í Hafnarfirði fyrir ritverk hennar og framlag til íslenskrar menningar í tengslum við Bóka- og bíóhátíð barnanna 2018.

Nánasta fjölskylda Guðrúnar var viðstödd afhjúpun hjartasteinsins við hlýlega og látlausa athöfn og sótti hún í framhaldinu fjölskyldusýningu í Bæjarbíói þar sem myndin Jón Oddur og Jón Bjarni var sýnd á stóra tjaldinu.

Bókin um tvíburana er ein vinsælasta barnabók sem gefin hefur verið út á Íslandi og fyrir hana hlaut Guðrún Norrænu barnabókaverðlaunin. Skáldverk Guðrúnar telja á þriðja tug og hafa bækur hennar verið gefnar út á ýmsum tungumálum. Nokkrar bækur hennar gerast í Hafnarfirði, meðal annars tengt æskuheimili fjölskyldunnar á Jófríðarstaðaveginum.

Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert