Höfðu afskipti af dreng sem talinn var vopnaður

Sérsveitin var kölluð út vegna gruns um vopnaburð.
Sérsveitin var kölluð út vegna gruns um vopnaburð. mbl.is/​Hari

Á fimmta tímanum í nótt barst lögreglu tilkynning um vopnaðan mann í miðborginni, sem var metin trúverðug og tekin alvarlega. Vegfarandi sagðist hafa heyrt tvo menn, sem áttu í útistöðum, tala saman og að annar þeirra hefði sagst vera vopnaður. Skildi vegfarandinn það þannig að um skotvopn væri að ræða. Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglu.

Brást lögregla strax við, staðsetti manninn og hafði afskipti af honum. Hann reyndist hins vegar vopnlaus og undir 18 ára aldri. Myndbandsupptaka af samskiptunum hefur birst á samfélagsmiðlinum Tik Tok, en þar sést hvar sérsveitarmenn spyrja drenginn meðal annars hvað hann sé með í vösunum. Virðist hann furða sig á uppákomunni.

Sérsveitarmaður virðist beina vopni að drengnum en í tilkynningu frá lögreglu segir að um svokallaða höggboltabyssu sé að ræða sem sé á sama valdbeitingarstigi og lögreglukylfa.

Brugðist við samkvæmt verklagi

Í tilkynningu frá lögreglu segir að vegfarandinn hafi gefið greinargóða lýsingu á manninum sem átti að hafa vopnið undir höndum. Brugðist hafi verið strax við samkvæmt verklagi, en í því felist m.a. að kalla til vakthafandi lögreglumenn hjá sérsveit ríkislögreglustjóra.

Í samtali við lögreglu viðurkenndi drengurinn að hafa látið orð um vopnaburð falla í samskiptum við mann skömmu áður.  

Enginn var handtekinn vegna málsins en haft var samband við forsjáraðila drengsins þar sem hann var undir 18 ára aldri, að fram kemur í tilkynningu frá lögreglu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert