Hvað ef ég dey?

„Fyrir þremur árum var ég einhleyp með kött. Svo eignaðist …
„Fyrir þremur árum var ég einhleyp með kött. Svo eignaðist ég hund, svo barn, svo mann með tvö börn og svo annað barn. Þannig að nú er ég gift með fjögur börn og ég ætla ekki að spyrja hvernig þetta gerðist allt heldur njóta,“ segir Eva, leikstjóri Vitjana og yfirframleiðandi. mbl.is/Ásdís

Leikstjórinn og kvikmyndaframleiðandinn Eva Sigurðardóttir situr sjaldnast auðum höndum. Nýjasta verk hennar er sjónvarpsþátturinn Vitjanir sem sýndur er um þessar mundir en fleiri járn eru í eldinum. 

Eva er í dag 38 ára gift tveggja barna og tveggja stjúpbarna móðir og á auk þess kött og hvolpafullan hund. Það er því líf og fjör á heimilinu en staðan var allt önnur fyrir aðeins fáeinum árum. Þá var Eva einhleyp barnlaus kona á framabraut að vinna sig út úr kulnun.

Var alltaf öðruvísi karakter

Eva er einbirni, alin upp í Kópavogi, dóttir hjónanna Sigríðar Lóu Jónsdóttur og Sigurðar Inga Ásgeirssonar. Fjölskyldan er bahá’í-trúar sem Eva segir ákaflega fallega og umburðarlynda trú.

„Það að tilheyra þessu trúfélagi gerði mann svolítið öðruvísi en minningarnar eru jákvæðar. Í stuttu máli styður trúin fjölbreytileika og jafnrétti kynjanna en upprunalega er trúin frá Íran með höfuðstöðvar nú í Ísrael. Trúin er sú að guð allra trúarbragða heims sé sá sami. Mamma og pabbi voru ung og leitandi á þessum árum hippatímabilsins þegar þau tóku trúna, sem hefur haft mikil áhrif á þeirra líf og mína æsku,“ segir Eva og segir fólk í trúfélaginu standa saman og gefa mikið til baka til samfélagsins.

Skólaganga Evu var ekki alltaf dans á rósum en hún varð fyrir einelti nánast öll sín skólaár.

„Ég átti alltaf eina eða tvær góðar vinkonur en ég var annars alltaf út fyrir kassann og út fyrir hópinn. Ég tók það inn á mig og það var mjög sárt og versnaði eftir því sem ég varð eldri,“ segir hún og segist í raun ekki vita hvers vegna hún varð fyrir einelti.

„Ég var alltaf góður nemandi, einkabarn foreldra sem voru í eldri kantinum, í þessu trúfélagi,“ segir hún og segist stundum hafa verið strítt vegna þess.

„Svo iðkaði ég dans og list sem var ekki eins vinsælt og fótbolti og fimleikar. Ég var alltaf öðruvísi karakter sem ég er mjög stolt af í dag, en sem barn var það erfiðara,“ segir Eva og segist alltaf hafa fundið sig vel á sviði, annaðhvort í dansi eða leiklist.

Þarna ýtti ég á pásu

Árið 2013 stofnaði Eva sitt eigið framleiðslufyrirtæki, Askja Films.

„Það var eftir BAFTA-tilnefninguna; ég ákvað að kýla á þetta. Ég stofnaði samt fyrirtækið á Íslandi því mér fannst það rétti staðurinn til að keyra verkefnin í gegn, þótt ég væri alltaf með annan fótinn í London. Það fyrirtæki stóð fyrir að framleiða myndir um eða eftir konur því það var það sem ég hafði mestan áhuga á. Það var svo árið 2019 að ég framleiddi fyrst mynd í fullri lengd, Tryggð, sem var byggð á bók Auðar Jónsdóttur, Tryggðarpanti, en Ásthildur Kjartansdóttir leikstýrði. Það var mikill sigur. Svo hef ég framleitt mikið af stuttmyndum,“ segir Eva.

„Ég var komin á þann stað að ég var að gera allt og það var bara ekki hægt. Það eru ákveðið margir klukkutímar í sólarhringnum,“ segir Eva en hún hafði verið framleiðslustjóri eða komið að framleiðslu á myndunum Hrútum, Andið eðlilega og Hjartasteini.

„Það var svo um áramótin 2018-2019 að ég endaði í kulnun og það var þá sem ég sá að ég þyrfti kannski að velja á milli; hvort vil ég framleiða eða leikstýra? Ég var búin að vinna og vinna bæði heima og í London en þrátt fyrir öll afrekin var ég alveg hætt að elska vinnuna. Ég var í afneitun og hélt að ég væri enn að höndla þetta en var haldin mikilli streitu. En af því ég bjó ein þá sá þetta enginn,“ segir Eva og segir að út á við hafi allt litið vel út.

„Svo komu þrjár vinkonur út til London í heimsókn og sáu ástandið á mér. Þær spurðu mig hvort það gæti nokkuð verið að ég væri í kulnun. Ég hafði aldrei heyrt þetta orð áður, bara orðið „burnout“, sem var næstum eitthvað sem fólk var stolt af því það sýndi hvað fólk vann mikið. Þær útskýrðu fyrir mér kulnun og ég áttaði mig á því að þetta ástand sem ég var í var ekki eðlilegt eða ásættanlegt. Ég annaðhvort svaf ekki neitt eða rosalega mikið. Ég var með endalausan kvíða, þunglyndi og ofhugsaði allt. Maður hugsar heldur ekki vel um heilsuna; mataræði og hreyfingu. Ég hugsaði bara ekki um sjálfa mig og þær sáu mig mjög viðkvæma og ekki sjálfri mér líka,“ segir hún og segist hafa upplifað létti þegar hún gat sett nafn á ástandið.

„Þarna var komin skýring og ég sá að þetta var nokkuð sem ég gæti ekki sætt mig við. Ég fór fyrst niður á við áður en ég gat hafið uppbyggingu. Ég þurfti að segja samstarfsfólki mínu að ég væri veik og þyrfti að stíga til hliðar. Þá hætti líka áreitið, sem ég fagnaði oftast, en þarna ýtti ég á pásu,“ segir Eva og segist hafa tekið sér ársfrí til að vinna sig úr kulnuninni.

Barðist fyrir lífi mínu

Eva segist hafa þurft að endurskoða líf sitt eftir kulnunina.

„Ég fór að spyrja mig hvað það væri sem skipti mig máli og hvort ég væri að lifa því lífi sem ég vildi sem 35 ára kona. Ég var þá búin að vera einhleyp í sex ár og hafði íhugað að eignast barn ein. Ég hafði alveg trú á því að ég myndi hitta einhvern en ég var að falla á tíma sem kona,“ segir Eva og segir þá staðreynd að hún hafi viljað eignast barn hafa truflað mögulegt tilhugalíf þar sem ekki væri hægt að setja þá pressu á nýjan kærasta að byrja um leið í barneignum.

„Ég sá að það skipti mig gríðarlega miklu máli að verða móðir og ákvað að kýla á það,“ segir hún og leitaði þá til Livio þar sem hún fór í tæknisæðingu með sæði frá dönskum gjafa.

Eva og Aldar sem hún eignaðist ein. Fæðingin var afar …
Eva og Aldar sem hún eignaðist ein. Fæðingin var afar erfið og var tvísýnt um líf Evu. Ljósmynd/María Katrín Fernandes

„Ég varð ólétt í fyrstu tilraun og held því að barnið hafi verið löngu tilbúið að koma í heiminn. Ég bjóst ekki alveg við að þetta myndi gerast svona fljótt en Aldar Ingi Evuson kom í heiminn í janúar 2020. Vinkona mín Drífa var með mér í fæðingunni og mamma, en þetta var mjög erfið fæðing. Ég fékk meðgöngueitrun og var níu daga á spítalanum og hélt ég myndi ekki lifa þetta af. Ég lenti í alls konar sýkingum, en ég var þrjá daga á spítala fyrir fæðingu í gangsetningu og sex daga á eftir, en hann var tekinn með keisara. Það var mjög erfitt að fara í gegnum þetta án maka því ég var að berjast fyrir lífi mínu og um leið vissi ég að ég var eina manneskjan í heiminum sem átti að sjá um þetta barn. Keisaraskurðurinn gekk ekki vel; deyfingin tókst ekki og þurfti ég því að fara tvisvar upp á skurðarborðið. Ég var búin að ganga frá því fyrir fram hver tæki barnið ef ég myndi ekki hafa það af,“ segir Eva og segist hafa valið Drífu vinkonu sína.

„Það var svo sturlað að hugsa: hvað ef ég dey? Ég var formlega búin að spyrja Drífu og hennar mann hvort þau myndu taka barnið ef illa færi. Svo ligg ég þarna á skurðarborðinu og var þá mjög fegin að hafa verið búin að ganga frá þessum málum,“ segir Eva og segir að sem betur fer hafi Aldar fæðst heilbrigður og flottur.

Ótrúverðug ástarsaga

Loks þegar Eva fór heim með litla drenginn gekk allt eins og í sögu. Þau höfðu það gott og fundu sinn takt. Það síðasta sem var í huga Evu á þessum tímapunkti var að finna sér mann, en það var einmitt það sem gerðist.

„Ég var auðvitað mikið ein og með barn á brjósti og til að stytta mér stundirnar horfði ég mikið á Netflix og fletti í gegnum samfélagsmiðla, en svo var mér farið að leiðast. Ég kíkti því á Tinder bara til að fletta; sjá hverjir væru þar inni. Þetta var næstum eins og leikur. Svo prufaði ég að „matsa“ og ákvað að segja strax að ég væri einstæð móðir, bæði til að sjá hvernig mér liði með það og eins til að sjá hvernig menn myndu taka því. Þetta var eins konar tilraunastarfsemi að segja þetta „upphátt“; að skilgreina hver ég væri þarna,“ segir hún og brosir.

„Svo var það strákur sem náði að plata mig í göngutúr og ég veit ekki hvernig hann fór að því. En ég hugsaði; ég fer hvort sem er í göngutúr með Aldar í vagninum og hundinn. Við tókum einn hring í kringum Klambratún og mér fannst hann voða sætur, en var svo sem ekki að pæla meira í þessu; ekki var ég að fara í samband svona fljótt. En honum fannst ég svo fín og var mjög duglegur að hafa samband. Ég varð skotin í honum strax,“ segir Eva og segir manninn alltaf hafa sýnt sér mikinn skilning og tillitssemi og gefið sér mikið pláss.

„Hann var eiginlega draumaprins,“ segir hún og hlær, en sá heppni heitir Steinar Bjarki Magnússon, matreiðslumeistari og sölumaður. Hann átti þá átta ára stúlku og þrettán ára dreng sem Eva fékk fljótlega að kynnast.

Eva og Steinar smullu saman við fyrstu kynni.
Eva og Steinar smullu saman við fyrstu kynni. Ljósmynd/Laimonas Dom Baranaukas

„Ef ég myndi skrifa ástarsögu mína í bíómynd yrði hún ótrúverðug,“ segir Eva og hlær.

„Samband okkar er búið að vera á hraðferð og stundum hugsa ég: hvað er í gangi! En ég hef líka ákveðið að treysta. Þegar ég lá á fæðingardeildinni og fannst ég vera að deyja hugsaði ég að kannski væri betra að eiga einhvern sem stæði við bakið á mér frekar en að sanna fyrir heiminum hversu sterk ég væri ein á báti. Ég opnaði loks hjarta mitt og ákvað að treysta. Treysta því að fólk væri gott og að hlutirnir gerðust af réttri ástæðu. Ég held ég hefði aldrei farið í þetta samband ef ég hefði ekki verið búin að eignast Aldar. Hann opnaði hjarta mitt og ég hef oft sagt að hann hafi ákveðið að finna pabba sinn strax,“ segir hún og segir að vegna þess að hún var með ungbarn hafi þau þurft að ákveða fljótt hvort það væri alvara í sambandinu.
„Og af því að það var Covid höfðum við ekkert annað að gera en að vera saman, þannig að við kynntumst mjög hratt,“ segir Eva og segir Steinar strax hafa tengst Aldari sterkum böndum.

„Hann er með ótrúlega stórt hjarta og nóg pláss í því.“

Gift með fjögur börn

Nákvæmlega ári eftir fyrstu kynnin voru Eva og Steinar orðin hjón og Eva nýorðin ólétt að syni þeirra Óðni.

„Það var planað og aftur varð ég ólétt strax. Hann mætti svo 21 mörk og alveg eins og pabbi hans,“ segir Eva og segir þá meðgöngu og fæðingu hafa gengið mun betur, en þó hafi hún fengið meðgöngusykursýki og var Óðinn tekinn með keisara.

Þannig að á stuttum tíma umturnast líf þitt?

„Já, fyrir þremur árum var ég einhleyp með kött. Svo eignaðist ég hund, svo barn, svo mann með tvö börn og svo annað barn. Þannig að nú er ég gift með fjögur börn og ég ætla ekki að spyrja hvernig þetta gerðist allt heldur njóta.“

Ári eftir að Eva og Steinar fóru í fyrsta göngutúrinn …
Ári eftir að Eva og Steinar fóru í fyrsta göngutúrinn giftu þau sig. Eldri börnin, Vilhelm Leví og Rebekka Lind, eru hér með Evu, Steinari og litla bróður, Aldari. Eva bar þá Óðin undir belti. Ljósmynd/Laimonas Dom Baranaukas

Eva hefur að vonum nóg að gera með einn sex mánaða dreng og annan tveggja ára.

„Ég er í fæðingarorlofi en kann það samt ekki. Ég er enn vinnualkinn sem lenti í kulnun. Ég á mjög erfitt með að vera „bara“ í fæðingarorlofi, og það var eins þegar ég átti Aldar. Ég var að vinna þættina Vitjanir með handritshöfundunum á Zoom með barnið á brjósti þá,“ segir Eva og segir hugmyndina að Vitjunum upprunalega komna frá Kolbrúnu Önnu Björnsdóttur, einum af handritshöfundum, ásamt Valgerði Þórsdóttur. Báðar eru þær með stór hlutverk í þáttunum.

Óðinn litli er í dag sex mánaða, sonur Evu og …
Óðinn litli er í dag sex mánaða, sonur Evu og Steinars. Ljósmynd/María Katrín Fernandes

Ég þarf ekki mikið

„Við erum nú að skrifa seríu tvö og ég tek virkan þátt í skrifum þar,“ segir hún og segist upphaflega hafa ætlað sér að framleiða þættina en endað sem leikstjóri og yfirframleiðandi ásamt Glassriver.

„Ég hef fengið ótrúlega jákvæð viðbrögð við þessum tveimur þáttum sem sýndir hafa verið,“ segir Eva og segist hafa verið bæði spennt og kvíðin fyrir viðtökunum, en búið er nú að selja seríuna til Norðurlandanna og jafnvel víðar. Eva er einnig að vinna að nýrri unglingaseríu, Sumarnóttum, með Kolbrúnu Önnu og svo er handrit að dramatískri kvikmynd í vinnslu.

Vitjanir fjallar um mægður sem flytja í lítið þorp úti …
Vitjanir fjallar um mægður sem flytja í lítið þorp úti á landi. Katla Njálsdóttir og Sara Dögg Ásgeirsdóttir eru hér í hlutverkum sínum. Stilla úr Vitjunum

Vitjanir fjalla um Kristínu, bráðalækni sem finnur sig á nýjum stað í lífinu þegar eiginmaðurinn heldur framhjá. Hún ræður sig á heilsugæslu í sínum gamla heimabæ, Hólmafirði, og flytur þangað ásamt unglingsdóttur. Gamall kærasti, fjölskylda og vinir stíga nú aftur inn í líf hennar, en einnig sést framliðnum bregða fyrir.

„Þetta er saga af mæðgum, Kristínu og dóttur hennar, og svo ömmunni, en hún er miðill og með henni koma draugarnir,“ segir hún og segir þær allar þrjár sem söguna sköpuðu heillaðar af þessum heimi og persónum hans.

„Við skiljum ykkur eftir með spurningar í lok áttunda þáttar og vonum því að við fáum að gera aðra seríu til þess að svara þeim. Við krossum fingur að þetta falli vel í kramið,“ segir Eva og segist ekki hafa hugmynd um hvort hún muni efnast af allri vinnu sinni.

„Ég þarf ekki mikið. Á meðan ég get séð fyrir börnunum mínum, átt tíma með manninum mínum og fjölskyldu og fæ að starfa við mína list er ég sátt.“

Ítarlegt viðtal er við Evu í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert