Guðni Halldórsson, íbúi að Skrauthólum 2 og formaður Landssambands hestamanna, segir að þeim hafi borist nafnlaus ábending um að níðstöng, sem reist var fyrir framan hús þeirra í gær, hafi ekki beinst gegn þeim.
Gjörningurinn hafi beinst að starfsemi Sólsetursins við Skrauthóla 4 og því meinta andlega og kynferðislega ofbeldi sem sagt er eiga sér stað þar.
Hann sagði það vera vissan létti að þetta hafi ekki beinst gegn þeim, en að eiginkona hans, Kristjana Þórarinsdóttir, og börn þeirra hafi ekki sofið heima í nótt. Guðni sjálfur er staddur í útlöndum á ráðstefnu. „Hún hefur en ekki þorað að fara heim nema til þess að gefa hænunum,“ segir Guðni í samtali við mbl.is.
Greint var frá því í gær að níðstöng með afskornum hrosshaus hefði verið sett upp fyrir utan Skrauthóla 2 við Esjurætur. Töldu þau að níðstöngin beindist gegn þeim vegna formennsku Guðna.
Stofnandi Sólsetursins, Linda Mjöll Stefánsdóttir, sagði í fréttum RÚV í gær að hún teldi níðstöngina frekar beinast gegn sér og Sólsetrinu og virðist því hafa haft rétt fyrir sér.
Guðni segist ekki hafa látið lögregluna vita af ábendingunni um að níðstöngin hafi ekki beinst gegn þeim og segist ekki vita hvernig rannsókn lögreglu sé háttað í málinu. Greint var frá því í fjölmiðlum í gær að lögregla væri með málið til rannsóknar og að Matvælastofnun hefði fjarlægt hrosshausinn.
Guðni er harðorður í garð Sólsetursins og segir ólíðandi að þau fjölskyldan séu í skotlínunni vegna þeirrar starfsemi sem fram fer þar.
„Í mínum huga er þessi níðstöng bara afleiðing af löngum tíma þar sem ekkert hefur verið gert í þessu máli. Þarna er bara rekin ólögleg starfsemi og ólögleg búseta fjölda manns. Það er sama hvort það er talað við slökkvilið, slökkviliðsstjóra, lögreglu, heilbrigðiseftirlit, það gerir enginn neitt og allir vísa hvern á annan. Auðvitað ætti að vera búið að hreinsa út þarna,“ segir Guðni.
Starfsemi Sólsetursins er um margt óljós en þar er fólk sagt búa í gömlum strætisvögnum og ónýtum bifreiðum án allra tilskilinna leyfa. Haldnar séu hátíðir og athafnir með óljósum tilgangi.
„Það hafa komið upp eldsvoðar þarna og slökkviliðið kallað til. Ég hef fengið þau svör frá slökkviliðinu að ef það sé brugðist við þessum húsnæðisvanda þá færist hann bara eitthvað annað. Þetta eru náttúrulega engin svör.“