Tekjur af hljóðbókum tvöfaldast milli ára

Vísbendingar eru um að lestur prentaðra bóka sé að dragast …
Vísbendingar eru um að lestur prentaðra bóka sé að dragast saman. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Lestur er að stóraukast og rafbókin er í stórsókn. Þetta eru mjög jákvæðar fréttir,“ segir Stefán Hjörleifsson, framkvæmdastjóri Storytel á Íslandi.

Tölur Hagstofu Íslands um veltu íslenskra bókaútgefenda sýna áframhaldandi vöxt milli ára. Tekjur bókaútgefenda jukust um 15% í fyrra frá árinu 2020 og fóru í fyrsta skipti yfir fjóra milljarða á einu ári. Þetta er þriðja árið í röð þar sem verulegur vöxtur er milli ára en mikill samdráttur var um árabil þar á undan.

„Sem fyrr er það hljóðbókin sem dregur vagninn en tekjur íslenskra útgefenda af hljóðbókum tvöfölduðust milli ára. Rafbókin er líka í mikilli sókn en hjá Storytel jókst sala á rafbókum um 400% og er enn í miklum vexti,“ segir Stefán.

Samkvæmt tölum frá Storytel hefur lestur raf- og hljóðbóka aukist verulega eða um 50% milli ára og er kominn vel yfir milljón klukkustundir í hverjum mánuði að staðaldri. Þá vekur það athygli að fjöldi seldra rafrænna eintaka á Íslandi í streymi fór í fyrsta sinn yfir fjölda seldra prentaðra eintaka í fyrra en alls voru seld rafræn eintök yfir 1,5 milljónir.

Prentaðar bækur gefa eftir

„Því miður eru vísbendingar um að lestur prentaðra bóka sé að dragast saman en samkvæmt könnunum kaupa Íslendingar færri bækur en áður og lestur prentaðra bóka virðist að sama skapi hafa minnkað. Sem betur fer styður hvert útgáfuform þó annað og það sem skiptir meginmáli er að þótt það hafi orðið breytingar á því hvernig fólk nýtur bóka þá eru tekjur rétthafa að aukast heilt yfir,“ segir Stefán.

Tekjur Storytel jukust um 35% milli ára og eru enn í örum vexti að sögn framkvæmdastjórans. Það sem af er þessu ári hafa þær aukist um 25%. „Þetta eru jákvæðar fréttir fyrir bókageirann því Storytel greiðir meirihluta tekna sinna til rétthafa bóka og því aukast tekjur þeirra í sama hlutfalli.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert