Tilraun til að liðsinna máluð upp sem illvilji

Sólveig spyr hvort varaformanni sé sjálfrátt.
Sólveig spyr hvort varaformanni sé sjálfrátt. Samsett mynd/mbl.is

Agnieszka Ewa Ziolowska, varaformaður Eflingar, sakar Sólveigu Önnu Jónsdóttur, formann Eflingar, um að hafa bolað sér út af fundum kjaramáladeildar þar sem hún starfaði. Það hafi í gerst í kjölfarið af ásökun um einelti á hendur henni sem Agnieszka segist hafa fengið staðfest að væri uppspuni. Þetta kemur fram í viðtali við hana í Fréttablaðinu í dag.

Í færslu sem Sólveig birti á Facebook í morgun segir hún frásögn varaformanns afbökun á raunveruleikanum og spyr hún hvort Agnieszku sé sjálfrátt að láta hafa eftir sér ósannindin. Segir hún Agnieszku því miður iðulega hafa átt erfitt með að hafa stjórn á skapi sínu á vinnustaðnum.

„Tilraun mín til að liðsinna henni og finna lausn svo að ekki kæmi til formlegrar eineltiskvörtunar gegn henni er nú máluð upp sem illvilji minn gagnvart henni, og samsæriskenning útbúin þar sem kvörtunin er í raun runnin undan mínum rifjum til að koma í veg fyrir að Agnieszka gæti setið fundi,“ segir Sólveig.

Agnieszka Ewa Ziól­kowska, vara­for­maður Efl­ing­ar.
Agnieszka Ewa Ziól­kowska, vara­for­maður Efl­ing­ar. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Fékk að vita að málið væri uppspuni

Í viðtalinu segir Agnieszka Sólveigu hafa verið duglega að raða í kringum sig svokölluðu já-fólki sem studdi allar ákvarðanir hennar. Það hafi hún fundið á eigin skinni þegar henni var tilkynnt eftir tvo mánuði í starfi á skrifstofunni að hún hefði verið sökuð um einelti og öllum í kjaramáldeildinni greint frá því.

Hún hafi hins vegar ekki fengið að vita hvað hún átti að hafa gert og furðaði sig á ásökuninni þar sem hún hafi alltaf átt í góðum samskiptum við starfsmanninn sem kvörtunin átti að hafa komið frá.

Hún hafi síðar spurt viðkomandi beint út í kvörtunina og fengið þær upplýsingar að yfirmaður hefði lagt fram kvörtun fyrir hönd starfsmannsins. Sá hafi síðar viðurkennt að málið hefði verið uppspuni til að ýta henni til hliðar.

Virti niðurstöður skýrslunnar að vettugi

Segir Agnieszka Sólveigu og Viðar Þorsteinsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Eflingar, hafa átt leynifundi um málið og komist að þeirri niðurstöðu að hún væri sek fengi hvorki að taka þátt í starfseminni né sitja fundi deildarinnar.

Hún hafi verið í miklu áfalli og úr hafi orðið að þau hafi fengið sáttameðferð hjá Streituskóla forvarna. Niðurstaðan úr því starfi hafi verið sú að best væri ef Agnieszka fengi að tjá sína hlið á fundi.

Sólveig og Viðar hafi hins vegar virt niðurstöður skýrslunnar að vettugi og Sólveig sagt að eina lausnin væri að Agnieszka drægi sig algjörlega í hlé frá deildinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka