Þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa lagt fram þingsályktunartillögu þar sem Alþingi ályktar að heilbrigðisráðherra feli Sjúkratryggingum Íslands að bjóða út rekstur heilsugæslu á Suðurnesjum. Guðrún Hafsteinsdóttir, þingmaður flokksins í Suðurkjördæmi, er fyrsti flutningsmaður tillögunnar.
Í greinargerð þingsályktunartillögunnar segir að reynslan af einkareknum heilsugæslustöðvum hafi verið góð og að þær njóti almennt meira trausts en aðrar heilsugæslustöðvar og er þar vísað til þjónustukönnunar Maskínu fyrir allar 19 heilsugæslustöðvarnar á höfuðborgarsvæðinu frá árinu 2019.
Þingmenn Sjálfstæðisflokksins telja mikilvægt að bjóða út reksturinn á annarri heilsugæslustöð sem fyrst og tryggja að heimilislæknum standi einnig til boða að reka eigin þjónustu eins og aðrir sérfræðilæknar hafa kost á. Með því verði auðveldara að fá heimilislækna tilstarfa á Suðurnesjum.
Á Suðurnesjum er nú ein heilsugæsla og ein bráðamóttaka en um 30 þúsund íbúar eru á þjónustusvæði Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja (HSS). Bent er á að almennt sé miðað við að baki hverrar heilsugæslustöðvar séu 12 þúsund íbúar. Því ættu að vera þrjár heilsugæslustöðvar á Suðurnesjum.
„Það er skortur á heilbrigðisstarfsfólki og gríðarlegt álag. Það er óviðunandi staða og það er mat okkar flutningsmanna að mikilvægt sé að Heilbrigðis stofnun Suðurnesja fái aukið rými til að sinna sinni lögbundnu þjónustu. Kostir einkarekinna heilsugæslustöðva eru ótvíræðir og því full ástæða til þess að bjóða ekki einungis upp á þann kost á höfuðborgarsvæðinu heldur einnig tryggja landsbyggðinni möguleika á að nýta sér þjónustu þeirra,” segir Guðrún.
Svandís Svavarsdóttir, fyrrverandi heilbrigðisráðherra, ákvað síðasta sumar að hefja framkvæmdir við nýja heilsugæslustöð í Innri-Njarðvík. Ríkissjóður fjármagnar framkvæmdirnar að fullu en Reykjanesbær leggur til lóðina. Í greinargerðinni segi að ekki megi búast við því að framkvæmdum verði lokið fyrr en í lok árs 2024.
„Það er ekki hægt að láta íbúa Suðurnesja búa við óöryggi og skerta heilbrigðisþjónustu í tvö ár. Leysa þarf þennan bráðavanda hratt og örugglega. Eins og áður hefur komið fram hefur reynslan sýnt að gæði þjónustu og ánægja sjúklinga er meiri þegar um einkareknar heilsugæslustöðvar er að ræða og því mikilvægt að fjölga slíkum stöðvum, sérstaklega á þeim stöðum þar sem traust til heilsugæslunnar mælist lítið.“