Vinsælasta ferðaapp Íslendinga í enskri útgáfu

Í appinu má finna yfir 15.000 sögur og staðreyndir tengdar …
Í appinu má finna yfir 15.000 sögur og staðreyndir tengdar staðsetningum á Íslandi. mbl.is/Árni Sæberg

Mest sótta ferðaapp Íslendinga, Kringum, kemur út í enskri útgáfu um helgina. Appið inniheldur um 15.600 sögur og staðreyndir tengdar staðsetningum á Íslandi og hægt verður að skipta á milli tungumálanna með einum smelli.

„Það voru um 25-30 þúsund Íslendingar sem sóttu appið síðasta sumar. Það segir þér frá áhugaverðum stöðum, sögum og öðru slíku í kringum þig þannig að þú verður að fara á staðinn til að heyra sögurnar,“ segir Karl Thoroddsen, tölvunarfræðingur og maðurinn á bakvið appið, í samtali við mbl.is.

„Þú getur beðið símann um að lesa söguna fyrir þig eða segja þér frá atburðinum og fljótlega komu beiðnir um að fá þetta á ensku fyrir ferðamenn og við erum búin að vera að þýða mörg þúsund greinar yfir á ensku í allan vetur.“

Í nýju útgáfunni eru upplýsingar um öll söfn landsins, ásamt sundlaugum og menningarhúsum. Þá geta notendur bókað gistingu og aðra ferðaþjónustu í gegnum appið.

Karl Thoroddsen er maðurinn á bakvið appið.
Karl Thoroddsen er maðurinn á bakvið appið. mbl.is/Ásdís

Appið tengist nú Spotify

Nýja útgáfan segir notendum frá þekktum lögum sem hafa orðið til í nágrenninu og með beinni tengingu við Spotify eru lögin spiluð.

„Ef þú ert til dæmis að labba Barónsstíginn í Reykjavík þar sem Bubbi Morthens fæddist þá segir appið þér frá honum og síðan undir lokinn getur þú hlustað á lag Bubba Morthens,“ segir Karl.

„Þetta er svona um allt land, hljómsveitir fyrir norðan og austan og til dæmis lög sem hafa verið samin um ákveðin svæði.“

Nýja útgáfan er þegar komin fyrir Android-síma og segir Karl að um einn til tveir dagar séu í Apple-útgáfuna.

„Þetta er alveg ókeypis, það eru engar auglýsingar og það þarf ekki net eða neitt svoleiðis nema þú ætlir að hlusta á lög eða upplestur,“ segir hann.

„Þetta er í stöðugri framþróun og við erum alltaf að bæta við. Við erum að bæta við 400 til 500 nýjum sögum í hverjum mánuði.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert