Atvinnufjelagið hefur fengið dræmar móttökur frá verkalýðshreyfingunni, að sögn Sigmars Vilhjálmssonar, fyrirsvarsmanns samtakanna. Hann á þó von á að það gæti dregið til tíðinda á næstu vikum og muni það koma til með að styrkja stöðu Atvinnufjelagsins fyrir komandi kjaraviðræður.
„Verkalýðsfélögin halda auðvitað á valdasprotanum í því við hverja þau semja.“
Atvinnufjelagið eru samtök lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Þau voru stofnuð formlega í nóvember á síðasta ári.
Hingað til hafa Samtök atvinnulífsins þó verið í forsvari fyrir fyrirtæki, óháð stærð. Sigmar segir að tilkoma Atvinnufjelagsins ætti ekki að vera til þess fallið að veikja stöðu SA, aftur á móti sé landslagið breytt á fyrirtækjamarkaði og því sé ekki lengur raunhæft að ein samtök svari fyrir alla atvinnurekendur, valdastaðan innan samtakanna sé ójöfn og þau geti ekki beitt sér fyrir málefnum sem þjóna hagsmunum lítilla fyrirtækja ef það bitni á stærri fyrirtækjum.
Sigmar segir að Atvinnufjelagið sé búið að vera í viðræðum við önnur félög með sömu sýn, en getur þó ekki gefið upp hvaða félög hann eigi við. Það gæti orðið til þess að samtökin komist í svo sterka stöðu að þau verði ómissandi í kjaraviðræðunum sem eru á næsta leyti.
„Það væri mikill sigur ef þetta næst núna en við vissum alltaf að þetta yrði langtímaverkefni. Þannig erum við að kappkosta við að ná þessu en ef það heppnast ekki er það bara í takt við raunhæfari línu.“
Þróun verðbólgunnar hefur verið töluvert í umræðunni og mun óhjákvæmilega hafa áhrif á komandi viðræður. Sigmar segir að kaupmáttur launa hafi sérstaklega mikil áhrif fyrir þau fyrirtæki sem starfa á innlendum neytendamarkaði.
„Launþegar á Íslandi eiga í viðskiptum við litlu fyrirtækin, ekki sjávarútvegs eða útflutningsfyrirtækin.“
Það sem einkennir stöðuna í dag, að mati Sigmars, er að í kjarasamningum eru ýmis réttindi og kröfur sem enginn hafi áhuga á að rýra eða fella niður. Aftur á móti leggist kostnaður af þeim hlutfallslega þyngra á lítil fyrritæki en þau stærri.
„Veikindaréttur starfsmanna er til að mynda einhver ákveðinn fjöldi daga. Okkar sýn er sú að þegar kemur að langvarandi veikindum eigi að vera miðlægur sjúkra- og réttindasjóður. Í fjögurra manna fyrirtæki þar sem einn starfsmaður lendir í langvarandi veikindum þarf fyrirtækið að borga þau réttindi, en um leið að ráða annan starfsmann. Við það hækkar launakostnaðurinn um 25 prósent.“
Fyrirkomulag sem þetta telur Sigmar að væri mikilvæg lausn fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki, en SA muni aldrei beita sér fyrir svona lausnum enda séu þær til þess fallnar að leggja hlutfallslega meiri kostnað að stærri fyrirtækin.