Drífa Snædal, forseti Alþýðusambands Íslands, og Þórarinn Eyfjörð, formaður Sameykis, halda ræður á útifundi á Ingólfstorgi í dag í tilefni 1. maí hátíðarhalda.
Hvorki Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, né Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, flytja ræður á fundinum og virðast ekki taka þátt í dagskránni með formlegum hætti. Bæði hafa þau gagnrýnt forystu ASÍ harðlega.
Efling hefur hins vegar boðið til kaffisamsætis í Valsheimilinu, þar sem ísvagn kemur á staðinn og börn geta fengið andlitsmálningu.
VR hefur einnig boðið í verkalýðskaffi í anddyri Laugardalshallarinnar.
Kröfuganga fer af stað frá Hlemmi klukkan 13:30 og verður gengið að Ingólfstorgi við undirleik Lúðrasveitar Verkalýðsins og Lúðrasveitarinnar Svans.
Útifundur á Ingólfstorgi hefst svo klukkan 14:10 og ásamt ræðuhöldum verður boðið upp á tónlistaratriði frá Bubba Morthens og Unu Torfa. Þá munu kórar og fundarmenn flytja Maístjörnuna.
1. maí hátíðahöld eru víða um land og má nálgast dagskrá þeirra á vef ASÍ.