Enginn hefur fyrr náð þeim áfanga sem Hulda Óskarsdóttir náði í gær, 30. apríl, en hún fagnaði 85 ára verslunarprófsafmæli. Hulda brautskráðist frá Verzlunarskóla Íslands árið 1937.
„Mamma fór í Kvennaskólann og þegar hún lauk námi þar vildi hún mennta sig meira. Ástæðan fyrir því að hún valdi að fara í Verslunarskólann til að taka verslunarpróf gæti að hluta til verið sú að móðurbróðir hennar, Sigurður Guðjónsson, var lengi kennari við skólann,“ segir Auður María Aðalsteinsdóttir, ein af þremur dætrum Huldu, en þar sem Hulda er á 103. aldursári treysti hún sér ekki til að koma sjálf í viðtal í tilefni af tímamótunum.
„Ég er ekki frá því að það hafi haft áhrif á að mamma sóttist eftir að mennta sig, að móðursystir hennar, Stefanía Guðjónsdóttir, hafði farið í Menntaskólann í Reykjavík, sem fáar stúlkur af hennar kynslóð gerðu. Mamma hafði því þessa menntuðu kvenfyrirmynd í fjölskyldunni, en á þessum tíma var litið mikið upp til þeirra sem fóru í MR. Mamma talaði stundum um þessa menntuðu frænku sína sem hafði farið í MR og ég efast ekki um að mamma hafi verið sjálf góð fyrirmynd systur sinnar, Guðnýjar Sesselju, sem alltaf var kölluð Sissa. Sissa var sex árum yngri en mamma og hún fór líka í Verslunarskólann,“ segir Auður og bætir við að móðir hennar hafi farið út á vinnumarkaðinn eftir verslunarprófið.
Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu sem kom út laugardaginn 30. apríl.