Fordæma ósvífna og óskiljanlega ákvörðun

Halldóra Sveinsdóttir er formaður Bárunnar.
Halldóra Sveinsdóttir er formaður Bárunnar. Ljósmynd/Aðsend

Báran stéttarfélag fordæmir þá „ósvífnu og óskiljanlegu ákvörðun“ meirihluta stjórnar Eflingar að segja upp öllu starfsfólki á skrifstofu félagsins. Þetta kemur fram í ályktun trúnaðarráðs félagsins.

Hafnar trúnaðarráðið útskýringum stjórnar Eflingar og telur að ástæða uppsagnanna sé krafa um hollustu við formann og stefnu hans, umfram kröfu um fagmennsku og þjónustu við félagsfólk.

Vekur trúnaðarráðið jafnframt athygli á því að mikill meirihluti starfsfólksins eru konur, sem nú missa vinnuna. Það dragi úr trúverðugleika hreyfingarinnar í baráttunni fyrir jafnrétti og aukinni virðingu fyrir kvennastörfum.

„Trúnaðarráð Bárunnar fordæmir það ofbeldi sem einkennt hefur umræðuna í kringum málefni Eflingar. Félagsfólk í verkalýðshreyfingunni á skýlausa kröfu til þess að forsvarsmenn hreyfingarinnar sýni háttsemi í orðavali og ráðist ekki á félaga sína  eða starfsfólk með yfirgangi og ósannindum,“ segir í ályktuninni.

Lýsa yfir stuðningi við forseta ASÍ

Þá harmar trúnaðarráðið þá stöðu sem launafólk innan ASÍ hefur orðið vitni að vegna átaka innan hreyfingarinnar þar sem ráðist hafi verið að starfsfólki hreyfingarinnar, forseta ASÍ og fleirum og vegið að grundvallarréttindum launafólks. Einnig er lýst yfir stuðningi við Drífu Snædal, forseta ASÍ, sem komið hafi starfsfólki Eflingar til varnar.

„Trúnaðarráð Bárunnar átelur jafnframt að hvorki Miðstjórn ASÍ né Starfsgreinasamband Íslands hafa séð ástæðu til að taka afstöðu með starfsfólki og grundvallargildum verkalýðshreyfingarinnar með því að fordæma skilyrðislaust framgöngu meirihluta stjórnar Eflingar. Þessi framganga gæti haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar fyrir baráttu hreyfingarinnar fyrir betri kjörum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert