Forystan hafi skyldum að gegna gagnvart félögunum

Fjölmenni var á útifundi á Ingólfstorgi.
Fjölmenni var á útifundi á Ingólfstorgi. mbl.is/Óttar

Í ávarpi sínu vegna 1. maí hátíðarhalda í dag kom Drífa Snædal inn á það að víða væri barátta í gangi um þessar mundir, þar á meðal innan verkalýðshreyfingarinnar. Þá væri ágætt að minnast á hvaðan hreyfingin væri sprottin, hvað hefði áunnist og hvert hlutverk hreyfingarinnar væri.

„Við sem erum kjörin til forystu höfum skyldum að gegna gagnvart félögum, vinnandi fólki og almenningi öllum. Okkur ber að starfa saman um það sem við samstaða er um og hún er víðtæk. Við eigum að gera það með virðingu fyrir vinnandi fólki alls staðar, mennsku og staðfestu,“ sagði Drífa meðal annars.

Næg væru viðfangsefnin sem heimurinn allur glímdi við.

Drífa Snædal, flutti ávarp á Ingólfstorgi í dag.
Drífa Snædal, flutti ávarp á Ingólfstorgi í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Enn á ný er reynt að ljúga því að fólki að bankarnir okkar séu betur komnir í höndum fjárfesta, þeirrar sömu og hafa verið á sviðinu um áratuga skeið og bera ábyrgð á efnahagslegum hörmungum sem komu hart niður á almenningi. Og víðar er reynt að sölsa undir sig almannaeigur, hvort sem það eru leikskólar, öldrunarheimili eða heilbrigðiskerfið allt. Eftir því sem hinir ríku verða ríkari þarf að koma peningunum fyrir og ávaxta þá. Fjárfestar heimsins fara þá að líta hýru auga til almannaeigna og húsnæðis með skelfilegum afleiðingum fyrir vinnandi fólk, þau sem njóta þjónustunnar og almenning allan. Við höfum endalaus víti til að varast,“ sagði Drífa.

Verkamannabústaðakerfinu slátrað 

Hún benti á að verkalýðshreyfingin væri stofnuð til að berjast fyrir bættum kjörum, atvinnuöryggi og ekki síst því að öll umgjörð sem auðveldi daglegt líf sé mótuð fyrir fólk en ekki fjármagn. Skýrasta dæmið um velferð sem farið hefði út af sporinu væru húsnæðismálin, þar sem meira væri hugsað um fjármagn en ekki fólk.

mbl.is/Óttar

 

„Verkamannabústaðakerfinu var slátrað af því það átti að vera svo frábært að gera alla að litlum kapítalistum í stað þess að huga að húsnæðisöryggi fyrir alla. Þetta var á þeim tímum þegar almannaeigur voru unnvörpum seldar og ýtt undir þá hugmynd að almenningur gæti öðlast velsæld með því að sýsla með hlutabréf. Auðvitað enduðu svo öll þessi hlutabréf í höndum fárra sem mökuðu krókinn og keyrðu bankakerfið að lokum í þrot.

mbl.is/Óttar

 

Það hafi hins vegar tekist illa á gullaldarárum einkavæðingarinnar að gera allan almenning að kapítalistum því auðvitað hafi fjármagnseigendur tekið yfir allt.

„Síðan blasir við sú einfalda staðreynd að flest viljum við það sama: stunda okkar vinnu, líða vel í vinnunni og fá sanngjarnt greitt, mennta okkur og börnin okkar og hafa tækifæri til njóta þess fallega og góða í lífinu. Til þess þarf að búa við atvinnu- og afkomuöryggi, frið, lýðræði og húsnæðisöryggi.“  

mbl.is/Óttar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert