Fjöldi nýrra framkvæmda við hjólainnviði á höfuðborgarsvæðinu er í gangi eða fer í gang á þessu ári og bætist þar við ört stækkandi hjólastígakerfi svæðisins. Flestar framkvæmdirnar eru sem fyrr í Reykjavík, en einnig má sjá fjölda nýrra verkefna í nágrannasveitarfélögunum. Vegagerðin er einnig að koma inn með nokkrum þunga í takt við samgöngusáttmála ríkisins og sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu.
Halda á áfram með útivistarstíg upp í Kaldársel meðfram Kaldárselsvegi, en um er að ræða heildarframkvæmd sem er 3 km að lengd.
Í samstarfi við Vegagerðina er áformað að hefja framkvæmdir við nýtt stígakerfi við Strandgötu bráðlega, en stígurinn á að ná frá Reykjanesbraut að Flensborgartorgi, samtals um 700 metrar. Samkvæmt Vegagerðinni er þetta ásamt nokkrum öðrum framkvæmdur mikilvægur hluti af því að mynda góðan norður-suður-ás þvert á sveitarfélögin. Í dag er að mestu sameiginlegur stígur á þessum ás, en vegna mikillar notkunar vill Vegagerðin huga að aðskildum kerfum til að auka öryggi og þægindi vegfarenda.
Önnur mikilvæg framkvæmd á þessum ás er stígur sem á að vera sunnan vegamóta Álftanesvegar og Hafnarfjarðarvegar/Reykjavíkurvegar við Norðurbæinn í Hafnarfirði og mun stígurinn ná að Hjallabraut. Er þessi framkvæmd nú í hönnun, en búist er við að framkvæmdir við þær báðar geti hafist á þessu vori/sumri, en muni teygja sig yfir á næsta ár.
Samkvæmt svörum Hafnarfjarðar er einnig verið að skoða með fleiri stíga, en niðurstaða um þá liggur ekki fyrir enn sem komið er.
Þriðja mikilvæga framkvæmdin á þessum ás sem ráðast á í á þessu ári eru svo undirgöng við Arnarnes, en mbl.is greindi fyrst frá þessum áformum á síðasta ári. Eru undirgöngin hugsuð fyrir bæði gangandi og hjólandi með aðskildum stígum. Sérstaklega verður hugað að náttúrulegri lýsingu í göngunum og ljósop verður í þeim miðjum, en göngin sjálf verða um 30 metrar að lengd. Leiðin yfir Arnarnesið er ein af fjölförnustu stofnæðum fyrir hjólandi umferð á höfuðborgarsvæðinu í dag, en hún tengir m.a. Reykjavík við Garðabæ og Hafnarfjörð. Á þeirri leið þarf þó að fara yfir bæði Arnarneshálsinn og Kópavogshálsinn þar sem bæði nokkur hækkun er og fólk þarf að þvera umferðargötur. Samkvæmt tölum Vegagerðarinnar hjóluðu 19.512 stíginn sunnan Arnarness í maí í fyrra og 7.013 gengu hann í sama mánuði.
Auk þess er unnið að undirgöngum undir Hafnarfjarðarveg við Ásgarð á vegum Vegagerðarinnar. Frá undirgöngunum til vesturs á að leggja stíg meðfram læknum að undirgöngum við Sjálandsskóla og til austurs á að leggja stíg frá Ásgarðssvæðinu í gegnum Garðahraun efra til að bæta samgöngur að Molduhrauni og Urriðaholti.
Framkvæmdir við norður-suður-ásinn halda áfram í Kópavogi, en þær verða þrískiptar. Í fyrsta lagi á að hefja framkvæmdir í lok sumars á hjólastíg um Ásbraut á milli menningarhúsa og Kársnesbrautar. Áætluð verklok þar eru í lok árs 2023, en í dag eru þar málaðar línur fyrir hjólreiðafólk, en ekki sérstígur. Þá er í skoðun að útfæra aðskilda stíga sem ligga frá sveitarfélagsmörkum Kópavogs og Garðabæjar norður um voginn og að Kópavogstúni. Áætlað er að framkvæmdir þar hefjist í haust og ljúki í lok næsta árs. Beint í framhaldinu er gert ráð fyrir næsta áfanga, frá Kópavogstúni og upp að Borgarholtsbraut, meðfram Hafnarfjarðarveginum. Stefnt er að því að framkvæmdir hefjist einnig í haust, en að þeim ljúki árið 2024. Þegar þessum framkvæmdum lýkur verður að langmestu leyti komin samfelldur hjólastígur frá fyrrnefndum sveitarfélagsmörkum og út í Skerjafjörð og í austurátt upp Fossvogsdal og Elliðaárdal.
Í Kópavogi er einnig áætlað að hefja framkvæmdir í júní við nýjan stíg meðfram Lindarvegi á milli Fífuhvammsvegar og Arnarnesvegar. Áætluð verklok eru í júní árið eftir. Þegar er komin að miklu leyti hjólastígatenging frá Fífuhvammsvegi niður að Lindum og áfram meðfram Reykjanesbraut að Mjódd og mun þessi stígur verða framhald af því og inn á stíg sem liggur inn í Garðabæ.
Í sumar verða í gangi framkvæmdir í því sem kallast ævintýragarður í Mosfellsbæ, en það er svæðið á milli íþróttasvæðisins á Varmá og íbúðahverfisins í Leirvogstungu og mun það tengja íbúðabyggðina við miðbæ Mosfellsbæjar. Ekki er um að ræða sérstakan hjólreiðastíg, heldur er hann skilgreindur sem samgöngustígur og mun þvera bæði Varmá og Köldukvísl. Tengist stígurinn inn á núverandi stíg við Brúarland sem liggur svo upp í miðbæinn. Samhliða þessum framkvæmdum ætlar bærinn að nýta tækifærið og endurnýja fráveitulagnir frá Varmársvæðinu.
Undirgöng við Litluhlíð eru nú á lokametrunum og vonast er til að þau verði opnuð fljótlega. Þau munu tengja stígakerfi sem liggur norðan Bústaðavegar inn á Skógarhlíð, en þar er nú unnið að því að skoða hvernig best er að útfæra göngu- og hjólaleiðirnar eftir Litluhlíð. Verkhönnun verður í sumar og vonir standa til að framkvæmdir í Skógarhlíð geti hafist í haust og standi svo út næsta ár.
Í Elliðaárdal eru nokkur verkefni í gangi eða munu hefjast á árinu. Framkvæmdir við nýjan hjólastíg frá Höfðabakkabrú upp að gömlu Vatnsveitubrúnni (við Árbæjarlaug) hafa staðið yfir frá því seint á síðasta ári og munu klárast núna í vor eða sumar. Næsti áfangi þeirrar leiðar er svo upp frá Vatnsveitubrúnni að brúarstæði nýrrar brúar ofar við Elliðaár, gegnt reiðvellinum í Víðidal.
Á leiðinni er nokkuð brött brekka beint eftir Vatnsveitubrúna, með 7-10% halla. Gert er ráð fyrir að sveigja aðeins frá ánni á þeim kafla og draga úr hallanum. Er um samtals 1,5 km leið að ræða sem verður skipt í tvo áfanga. Kostnaður við stígagerðina alla leið án brúar er áætlaður um 200 milljónir. Brúin verður í svokallaðri Grænugróf, en samkvæmt forhönnun verkefnisins verður um lágreista brú að ræða með aðskildum stíg fyrir gangandi og hjólandi. Gert er ráð fyrir að brúin verði samtals um 60 metrar að lengd og að kostnaður verði um 220 milljónir, en stefnt er að framkvæmdum við hana og framhaldi á stígnum upp að Dimmu árið 2023.
Við Dimmu er svo áformað að gera nýja brú, en þar er í dag gömul hitaveitubrú með bröttum, illa förnum og hættulegum stigum. Stefnt er að því að bjóða framkvæmdina út í sumar og að framkvæmdir hefjist fyrir árslok og ljúki á næsta ári. Frá brúnni er svo áformaður stígur upp að nýjum mislægum gatnamótum við nýjan Arnarnesveg og Breiðholtsbraut. Framkvæmdir við gatnamótin munu að líkindum hefjast í haust og verður það eins og hálfs til tveggja ára framkvæmd og verður tenging göngu- og hjólastígs á seinni stigum framkvæmdatímans.
Mun neðar við Elliðaár eru svo tvær brýr í hönnun við hitaveitustokkinn rétt fyrir ofan Miklubrautina. Vegna takmarkana á framkvæmdatíma er aðeins hægt að vinna þar frá 15. október til 15. maí ár hvert og er stefnt á að framkvæmdir hefjist í vetur. Gæti því verið opnað fyrir umferð yfir þær sumarið 2023.
Áfram höldum við okkur við Elliðaárdal, en framkvæmdir við hjólastíg við Rafstöðvarveg, frá Toppstöð niður að Bíldshöfða, eru áformaðar í sumar. Samtals er þetta 570 m leið.
Í Gufunesi er svo nýlokið við 450 m blandaðan göngu- og hjólastíg upp frá nýbyggingasvæðinu upp að gatnamótum Borgarvegar og Strandavegar, en þar byrjar Hallsteinsgarður (listaverkagarðurinn). Stígurinn tengir nýju byggðina í Gufunesi við stígakerfi Grafarvogs.
Á Réttarholti er í gangi lagning á 1,7 km stíg frá Háaleitisbraut að Sogavegi meðfram hitaveitustokknum. Þegar er búið að leggja um 1 km, en búturinn frá Réttarholtsvegi að Tunguvegi er í hönnun og stefnt er að framkvæmdum á þessu ári. Jafnvel hefur verið í skoðun að klára þá framkvæmd niður að Sogavegi.
Við gatnamót Háaleitisbrautar og Bústaðavegar, fyrir ofan Landspítalann í Fossvogi, á að koma upp aðskildum göngu- og hjólaleiðum auk tenginga við aðliggjandi stíga. Er þetta meðal annars eitt af síðari púslunum í að ná heilum hjólastíg meðfram öllum Bústaðavegi, en enn eru smá kaflar eftir. Verða gatnamótin endurhönnuð og verða ljósastýrðar göngu- og hjólaleiðir um þau á alla vegu. Verkefnið verður boðið út í sumar og stefnt er á framkvæmdir í kjölfarið.
Við Þverársel í Breiðholti á að leggja sameiginlegan göngu- og hjólastíg, um 500 m langan, við ÍR-heimilið. Þetta tengist uppbyggingu í Suður-Mjódd, en enn er áformað að framkvæmdir verði í ár.
Þrjár framkvæmdir sem áður hafði verið gert ráð fyrir að ráðast í á þessu ári hafa frestast. Fyrst ber þar að nefna um 400 metra kafla við Rofabæ, en það er hluti af 1,2 km aðskildum göngu- og hjólastíg við götuna. Tengist það breytignu Rofabæjar í borgargötu. Hönnun verður í gangi í ár, en stefnt er á framkvæmdir á næsta ári.
Þá er hönnun í gangi á nýjum hjólastíg í gegnum Hálsahverfi í Árbæ, en stígurinn á að liggja frá Höfðabakka, fyrir ofan Mjólkursamsöluna, inn á Dragháls norðan megin. Á stígurinn að liggja út Dragháls og yfir endurbætt gatnamót við Hálsabraut og yfir á Krókháls og að göngustíg við undirgöngin sem liggja undir Suðurlandsveg í átt að Grafarholti. Er þetta samtals 1,3 km leið og er í skoðun að framkvæma hana í tveimur áföngum, en kostnaðaráætlun gerir ráð fyrir 110 milljóna framkvæmd. Deiliskipulagsmál eru í vinnslu en ekki er stefnt á framkvæmdir fyrr en á næsta ári.
Að lokum var búið að koma í gegnum skipulag hjólastíg við Sörlaskjól og Faxaskjól. Málið er nú í bið eftir mótmæli íbúa og er ljóst að engar framkvæmdir verða allavega á þessu ári.
Til viðbótar við þessar framkvæmdir er í skoðun hjá borginni að fjölga hjólastæðum og hlaupahjólastæðum við grunnskóla og uppfylla 20% viðmið samkvæmt hjólreiðaáætlun. Þá á einnig að fjölga tillum við hjólaljós, til að byrja með á fleiri stöðum við Miklubraut og Suðurlandsbraut og mögulega við Borgartún og Snorrabraut.
Ekki eru neinir nýir hjólastígar á dagskrá í ár, en nýlega kláraðist að endurnýja stíginn við Seltjörn á milli Gróttuvita og golfvallarins. Það er sameiginlegur hjóla- og göngustígur sem er 950 metra langur. Þá er einnig unnið að viðhaldi á stígnum meðfram Norðurströnd sem skemmdist í framkvæmdum síðasta haust.
Þessi grein birtist fyrst í Hjólablaði Morgunblaðsins sem kom út á laugardaginn. Þar má finna fjölmargar greinar, ferðasögur og umfjallanir um málefni sem tengjast hjólreiðum. Hægt er að nálgast blaðið í heild hér að neðan.