Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, segir að félagið stefni að því að fljúga tvisvar á dag á milli Keflavíkur og Akureyrar í náinni framtíð. Þetta kom fram á ráðstefnunni Tökum flugið sem fór fram á Akureyri í vikunni.
Á ráðstefnunni var fjallað um stöðuna á uppbyggingu Akureyrarflugvallar, samstarfs Niceair við Holland og framtíðarhorfur á millilandaflugi á Akureyri. Mörg erindi voru haldin og greinilegt að mikill hugur er í íbúum höfuðstaðar Norðurlands sem sjá mörg sóknarfæri í náinni framtíð.
Mörg áhugaverð erindi voru haldin á ráðstefnunni en helsta athygli vakti erindi Boga Nils Bogasonar forstjóra Icelandair þar sem hann talaði um framtíðarsýn fyrirtækisins á Norðurlandi. Hann sagði að stefnt væri að því að fljúga tvisvar á dag til Akureyrar frá Keflavíkurflugvelli og verið væri að undirbúa slíkt flug á Keflavíkurvelli, þó ekki væri nein tímasetning á flugið ennþá.
„Þetta voru góðar fréttir sem við fengum hjá Boga og áhugavert hvað það var mikill samhljómur hjá Boga og Sveinbirni Indriðasyni hjá Isavia varðandi það að byggja upp Keflavíkurflugvöll þannig að hann gæti tekið við tengifluginu og þjónusta farþega vel,“ segir Arnheiður Jóhannsdóttir framkvæmdastjóri markaðsstofu Norðurlands.
Arnheiður minnist líka á sóknarfærin sem Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson framkvæmdastjóri Niceair og Chris Hagan sem stjórnar Bretlandshluta fyrirtækisins sjá í meiri tengslum milli norðurlands og Manchester og London í Bretlandi og síðar Danmörku. Bretar eru fjölmennsti ferðamannahópurinn á Íslandi yfir vetrartímann.
„Það gjörbreytir allri okkar aðstöðu til vetrarþjónustu hér fyrir norðan að hafa þessi tengsl og væntanlegt beint flug frá Keflavík til Akureyrar. Það gerir okkur kleift að byggja áfangastaðinn Norðurland upp með því að auka afþreyingu, gistingu og veitingar og að halda þessu starfandi allt árið, ekki bara yfir háannatímabilið.“
Arnheiður segir mikilvægt að sjá möguleikana enda sé um stórt svæði að ræða.
„Við erum að horfa á svæðið alveg frá Borðeyri í Húnaþingi vestra og alveg austur að Bakkafirði. Það er starfssvæði markaðsstofunnar.“ Hún segir að markaðsstofan sé í samstarfi við Austurland með uppbyggingu á Egilsstaðaflugvelli. „Þá stækkar svæðið sem getur haft ávinning af svona flugi og getur náð alveg til Djúpavogar og jafnvel að Höfn í Hornafirði.“
Í erindi Anton Freys Birgissonar eiganda Geo Travel í Mývatnssveit kom fram að ferðamenn sem koma á veturna dvelji oft lengur og allt að vikutíma. Geo Travel er í samstarfi við Voigt Travel í Hollandi og var Cees van den Bosch,forstjóri hollensku ferðaþjónustunnar einnig með erindi á ráðstefnunni, en þar sjá menn mikil sóknarfæri á Norðurlandi.
Arnheiður segir að nú sé að færast kraftur í vinnu sem hefur átt sér langan aðdraganda en lengi hafi verið reynt að ná beinu flugi norður og í því hafi falist mikið samstarf, vöruþróun og þróun á áfangastaðnum. „Síðan kemur Covid og þá dettur allt í lægð, en á meðan vorum við að vinna undirbúningsvinnuna og nú eru bara allir klárir og tilbúnir að hefja sig til flugs.“
Hún segir að lokaorð ráðstefnunnar hafi verið frá Anton Frey í pallborðsumræðunum þegar hann talaði um að nú þyrftu allir að fara upp á dekk. „Við erum að horfa á alla virðiskeðjuna, horfa á flugvöllinn, flugfélögin, ferðaskrifstofurnar og grasrótina sem er að vinna og taka á móti og þjónusta ferðamennina í heimabyggð. Þetta þarf allt að vinna saman og allir hlekkirnir að vera sterkir svo þetta gangi upp. Þá eru okkur allir vegir færir.“