Nýtt upphaf hjá Eflingu fyrir kjarasamningaviðræður haustsins

Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar.
Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar. Samsett mynd/mbl.is

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar segir að húsnæðismál alþýðufólks, sanngjörn laun og nýting skattkerfisins sem jöfnunartæki sé það sem verði fyrirferðarmest þegar kemur að nýjum kjarasamningum, en lífskjarasamningarnir renna út í haust.  Þetta segir Sólveig Anna í samtali við mbl.is í tilefni af baráttudegi verkalýðsins, 1. maí.

Hún segir að eiginleg kröfugerð og vinna innan félagsins vegna kjarasamninga hafi ekki hafist og vonar Sólveig að félagið fái vinnufrið til þess að hægt sé að hefja þá vinnu. „Það er ekki er búið að setjast niður og forma samninganefndina en ég get þó fullyrt sem formaður Eflingar að mikilvægustu málin í kröfugerðinni verði að láglaunafólk fái það sem þau eiga skilið í hagkerfinu, að húsnæðismál alþýðufólks verði ekki ógeðslegt leikfang algerlega hömlulausrar auðstéttar, og að skattkerfið nýtist sem jöfnunartæki en sé ekki enn eitt tækifærð fyrir pólitíska og efnahagslega valdastétt til þess að þyngja birgðar láglaunafólks.“

Lífsgæðasamningarnir góðir

Sólveig segir lífsgæðasamningana hafa verið góða samninga fyrir launafólk og sérstaklega við þær aðstæður sem uppi hafi verið þegar þeir hafi verið undirritaðir. Hún segir samningana hafa skilað þeim lægst launuðu tilheyrandi launahækkunum en þó megi ávalt gera betur.

Þá bendir hún á að hagvaxtaraukahækkunin sem inn hafi komið nú um mánaðramótin séu enn ein sönnunin um gæði samninganna og að það sé gæfa okkar allra að samningarnir hafi haldið.

„Ég er þakklát fyrir að forysta Eflingar hafi náð að hrinda ítrekuðum árásum samtaka atvinnulífsins og annarra hópa innan pólitísku valdastéttarinnar sem snerist um það að taka launahækkun lífsgæðasamninganna af fólki og það hafði mikil og góð áhrif á íslenskt efnahagslíf.“

Nýtt upphaf hjá Eflingu

Hún segir að nýtt upphaf sé í augnsýn hjá Eflingu, en í dag tóku gildi uppsagnir starfsmanna í kjölfar aðalfundar félagsins þar sem Sólveig hlaut kosningu á ný sem formaður eftir að hafa sagt upp starfinu í október síðastliðnum. „Ég held að atburðarás þessa vetrar og kosninganna 15. febrúar ásamt niðurstöðu félagafundarins í síðustu viku sýni að hún þýði breytta tíma hjá félaginu.“

Sólveig segir einnig um félagafund Eflingar sem kallað var til af félagsmönnum í kjölfar uppsagna allra starfsmanna félagsins „fundurinn gekk augljóslega mjög vel og ég fagna því að fundurinn hafi átt sér stað og svona margir hafi mætt. Svo ég og félagar mínir erum auðvitað bara sigri hrósandi og glöð og þakklát fyrir það að niðurstöður kosninganna í febrúar hafi verið staðfestar á þessum fundi.“

„Auðvitað er 1. maí mikilvægur dagur“

Varðandi verkalýðsdaginn segir hún: „Dagurinn er auðvitað mikilvægur vegna þeirrar stórkostlegu sögu sem barátta láglaunafólks í gegnum tíðina hefur fært okkur það sem okkur þykir mikilvægast í okkar samfélagi, sem er verkfallsréttur og veikindaréttinn. Grunnstoðir velferðarsamfélagsins okkar. Auðvitað er fyrsti maí mikilvægur dagur fyrir allt launafólk en sérstaklega láglaunafólk.“

Sjálf segist hún hafa varið deginum við að ganga niður Laugarveg með félögum sínum og síðan hafi Efling staðið fyrir kaffisamlæti í Valsheimilinu.

Dagur verkalýðsins er í dag.
Dagur verkalýðsins er í dag. mbl.is/​Hari
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert