Ók á 13 ára stúlkur og flúði af vettvangi

Um sjöleytið í gærkvöldi var bíl ekið á tvær 13 ára stúlkur á hlaupahjóli og flúði ökumaður af vettvangi. Stúlkurnar féllu í götuna og voru laskaðar eftir fallið. Atvikið átti sér stað í hverfi 105. Málið er í rannsókn, samkvæmt því sem fram kemur í dagbók lögreglunnar.

Þá voru tveir menn í annarlegu ástandi handteknir um eittleytið í sama hverfi, grunaðir um eignaspjöll. Voru þeir þá búnir að brjóta rúðu í íbúðagámi og komnir þar inn. Lögregla hafði ítrekað þurft að hafa afskipti af mönnunum fyrr um kvöldið. Voru þeir vistaðir í fangageymslu lögreglu vegna rannsóknar málsins.

Tilkynnt var um húsbrot, eignaspjöll og þjófnað úr íbúð í Vesturbænum um tvöleytið í nótt. Sagðist húsráðandi hafa vaknað við að ljósgeisla af vasaljósi var beint í andlit hans.

Húsráðandi taldi sig þekkja manninn sem hafði verið í íbúð hans en sá aðili fór af vettvangi þegar húsráðandi vaknaði. Þá var búið að róta í skúffum og stela fjármunum.  Málið er í rannsókn, samkvæmt upplýsingum frá lögreglu.

Um ellefuleytið í gærkvöldi var tilkynnt um reiðhjólaslys í Árbænum, en ölvaður maður á reiðhjóli hafði dottið og lent inni í runna. Maðurinn var með minniháttar áverka í andliti og var fluttur til aðhlynningar á bráðadeild.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert