„Það er mín bjargfasta skoðun að verkalýðshreyfingin, atvinnulífið, verslun og þjónusta, Seðlabankinn, sveitarfélögin og ríkið eigi að taka höndum saman og finna leið til að milda afleiðingar aðgerða gegn verðbólgunni eins og hægt er,“ segir Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness og Starfsgreinasambands Íslands, um aðgerðir til að vinna gegn verðbólgu.
Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, telur brýnt að hlutaðeigendur nái sátt um að ná tökum á verðbólgunni og bendir á að samtal í þá veru sé hafið á vettvangi þjóðhagsráðs.
Nýjasta mæling Hagstofu Íslands sýnir að verðbólgan er nú 7,2%. Lilja Alfreðsdóttir viðskiptaráðherra sagði í aðsendri grein í Morgunblaðinu í fyrradag að stærsta verkefnið fram undan væri að ná tökum á verðbólgunni. Nefndi aðgerðir Seðlabankans, ríkisfjármálin þurfi að vera aðhaldssöm og vinnumarkaðurinn verði að taka tillit til aðstæðna.
„Verðbólgan er meiri og þrálátari en búist var við,“ segir Halldór Benjamín. Því valdi utanaðkomandi áhrif og aukin spenna í efnahagslífinu. Búast megi við miklum vaxtahækkunum og vísar hann í því efni til greiningardeilda bankanna sem geri ráð fyrir allt að einnar prósentu hækkun stýrivaxta Seðlabankans í næstu viku.
„Mikilvægt er að ræða áhrif niðurstaðna kjarasamninga á verðbólgu. Það lögmál gildir enn og mun gera um ókomna tíð, að innistæðulausir kjarasamningar valda verðbólgu, enda tapa allir á því og lágtekjufólkið mest,“ segir Halldór og telur að tryggja verði að nýir kjarasamningar muni ekki leiða til enn meiri verðbólgu og hærri vaxta. Hvorki fyrirtækin né heimilin njóti góðs af verðbólgu og háum vöxtum.
„Við erum að horfa upp á fordæmalausa tíma þar sem verðbólgan æðir stjórnlaust áfram, með sama hætti og er að gerast vítt og breitt um heiminn,“ segir Vilhjálmur Birgisson og heldur áfram: „Það sýnir okkur að almenningur og heimilin bera enga ábyrgð á þeirri verðbólgu sem nú er. Á þeirri fosendu er mikilvægt að stjórnvöld taki málið alvarlega og verji heimilin fyrir verðbólguskotinu,“ segir Vilhjálmur.
Hægt er að lesa meira um málið í Morgunblaðinu í dag.