Sniglar óku um götur borgarinnar

Hjólum raðað fyrir hópkeyrslu Snigla.
Hjólum raðað fyrir hópkeyrslu Snigla. mbl.is/Árni Sæberg

Bifhjólasamtök lýðveldisins, Sniglar, héldu í dag sína árlegu 1. maí hópkeyrslu þegar yfir þúsund mótorhjólakappar tóku þátt góðviðrinu. Ekið var niður hverfisgötu að Lækjargötu, síðan Sæbraut, upp Ártúnsbrekku og lauk ferðinni við Bauhaus. Þar var matur fyrir hjólarana þar sem Vöffluvagninn og Bumbuborgarar höfðu komið sér fyrir til að mótorhjólakapparnir gætu gætt sér á ljúffengum veitingum.

Þorgerður Fríða Guðmundsdóttir, formaður Snigla, sagðist vera spennt fyrir sumrinu og því loks geti mótorhjólafólk tekið hjólin út úr skúrnum.

„Veturinn var erfiður og fáir dagar þar sem göturnar voru þurrar og hægt var að nota hjólin þó svo að einhverjir hafi gert það í vetur. Nú getum við farið af stað og við vorum heppin með veðrið í dag, það leit nú ekki vel út í morgun en það rættist úr þessu,“ sagði hún í samtali við mbl.is.

82 ára og leiddi hópinn

Hún segir allskonar hjólum hafa verið ekið í hópkeyrslunni en sjálf aki hún um á Suzuki Hayabusa. Ferðin í dag hófst kl 12:30 við Klapparstíg og fremstur í flokki var hinn áttatíu og tveggja ára gamli Ásmundur sem fór fyrir hjörðinni.

Hjólin tilbúin til aksturs.
Hjólin tilbúin til aksturs. mbl.is/Árni Sæberg

Sniglar hafa í gegnum tíðina verið virkir í umræðunni um umferðaröryggi og hafa barist fyrir ýmsum breytingum á umferðarlöggjöf sem og slysavörnum og forvörnum. Ferðin í ár var ekin til styrktar Grensásdeildar og er tekið við frjálsum framlögum til móts við kostnað við keyrsluna. Heimsfaraldur hefur haft áhrif á starf félagsins undanfarin ár en í fyrra var haldið happadrætti til styrktar Grensásdeildar landspítalans sem Þorgerður segist bjartsýn á að haldið verði aftur.

„Ég vil fá að skila þökkum til Lögreglunar fyrir að hjálpa okkur við framkvæmd keyrslunnar. Einnig vil ég þakka reykjavíkurborg fyrir lokun gatna og vegagerðinni fyrir að hafa brugðist hratt við og sópað göturnar fyrir okkur,“ segir Þorgerður einnig.

BIFHJÓLASAMTÖK lýðveldisins, Sniglar, efndu til hópaksturs í dag.
BIFHJÓLASAMTÖK lýðveldisins, Sniglar, efndu til hópaksturs í dag. Sverrir Vilhelmsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert