Tuttugu og fimm daga fjallahjólaferð um hálendi Íslands hljómar líklega eins og ágætisáskorun fyrir flesta. Að fara í slíka ferð með sex og þriggja ára börn er hins vegar næsta stig áskorunar, bæði hvað varðar skipulag og utanumhald. Það var hins vegar það sem þau Mário Chan Silva og Ana Filipa Henriques Almeida frá Portúgal ákváðu að gera síðasta sumar og hjólaði þá eldri drengurinn sjálfur, en yngri stúlkan var í vagni.
Mário starfar sem háskólaprófessor og ljósmyndari en Ana sem sjúkraþjálfi, auk þess heldur Ana úti Instagram-reikningi þar sem hún segir frá ferðum þeirra. Áður en þau eignuðust Miguel (nú sjö ára) og Madalenu (nú 4 ára) fóru Mário og Ana mikið í bæði fjallgöngur og gönguferðir, bæði dagsferðir sem og lengri ferðir þar sem allt var borið á bakinu. Segjast þau meðal annars hafa farið reglulega í Alpana og víðar erlendis. Eftir að börnin komu til sögunnar var þó aðeins hlé á þessum lengri ferðum og segir Mário að erfitt sé að fara með ung börn í lengri ferðir þar sem bæði þurfi að bæta við talsvert af búnaði, auk þess að bera börnin.
„En svo byrjuðum við að fara í hjólaferðir síðustu ár og í fyrra gáfum við Miguel nýtt hjól með gírum, en með þeim gat hann byrjað að hjóla aðeins erfiðari leiðir,“ segir Mário.
Eftir þó nokkra dagstúra, sem voru þó allir hæfilega stuttir ákváðu þau að fara í þriggja daga ferð saman í nágrenni Lissabon, en þar býr fjölskyldan. Allt gekk eins og í sögu í þessari ferð og börnin voru ánægð með ferðamátann. Fjölskyldan fór því að huga að næstu ferð sem áætlað var að fara í um sumarið. Áður hafði Mário farið í sjö daga hjólaferð um Pýreneafjöllin, en Ana hafði ekki farið í meira en þriggja daga hjólaferð, þó fjalla- og gönguferðirnar hefðu stundum verið lengri.
Mário segir að þau hafi haft þrennt til hliðsjónar varðandi val á áfangastað. Númer eitt væri að geta hjólað sem mest á malarvegum eða slóðum (e. off road) svo Miguel gæti hjólað án mikillar umferðar í kringum þau. Næst væri að finna stað sem væri að miklu leyti með flötum leiðum, en ekki mikið af löngum brekkum. Þetta væri bæði fyrir Miguel, en ekki síður þar sem þau væru með barnavagn í eftirdragi og með allar vistir á hjólunum. Að lokum var mikilvægt í þeirra huga að mikið væri um drykkjarhæft vatn á leiðinni og auðvelt að finna það, en Mário segir að áður hafi þau t.d. lent í smá veseni í dagsferðum í Portúgal þar sem þau þurftu að ferðast með um 10 lítra af vatni á meðan 2-3 lítrar voru alla jafna nóg á Íslandi.
Frá upphafi horfðu þau til þess að ferðin yrði um 25 dagar en Mário segir að mikilvægt hafi verið fyrir þau að ákveða aldrei hvað hver dagleið yrði löng, heldur aðeins að hjóla meðan Miguel og Madalena vildu vera á ferðinni. Því hafi heildarvegalengd ekki verið ákveðin, en nauðsynlegt hafi verið að horfa til þess að hafa nokkur b-plön varðandi að koma sér aftur til byggða ef upp kæmu einhver vandamál.
Lokaniðurstaðan var að Ísland ætti að passa vel fyrir ferð eins og þessa. „Við vissum að við gætum lent í slæmu veðri og höfðum í raun mestar áhyggjur af vindi, en þar sem við vorum að skipuleggja ferðina um mitt sumar var það áhætta sem við töldum okkur vel tilbúin að takast á við, auk þess sem við höfðum mikla reynslu í fjallamennsku og slæmu veðri og vorum með góðan búnað, bæði fatnað og svefnaðbúnað.
Þau höfðu planað leiðina gróflega áður en þau lögðu af stað, en Mário segir að þau hafi jafnframt verið meðvituð um að þau gætu þurft að breyta um leið t.d. ef árvöð litu illa út og eftir veðurspá. Þau ákváðu að taka rútu að Seljalandsfossi og leggja af stað þaðan á Syðra-Fjallabak og tengja svo inn á Nyrðra-Fjallabak og fara í Landmannalaugar. Segir Mário að stærsta vandamálið með þetta leiðarval hafi í raun verið að passa sig með að tjalda ekki í friðlandinu að Fjallabaki, þar sem slíkt væri óheimilt utan skilgreindra tjaldsvæða.
Fyrsta daginn hjóluðu þau frá Seljalandsfossi og upp Fljótshlíð og eftir um 30 km var komið að fyrsta næturstað undir Þórólfsfelli. „Með krakkana vorum við að gera ráð fyrir um 10-30 km á dag, en vegalengd hvers dags var alltaf bara út frá því hvað Miguel vildi gera. Þegar hann vildi hjóla hjóluðum við og þegar hann vildi stoppa þá stoppuðum við,“ segir Mário og bætir við að það sem hafi gert þetta ferðalag mögulegt var að Miguel elskar að hjóla. „Hann er kannski ekki með sama þol undir áreynslu og við, en hann getur samt hjólað stóran hluta dagsins,“ og þau hlægja bæði og vísa til þess hvað börn á þessum aldri geta oft verið virk.
Á öðrum degi kom að talsverðri hækkun, alla vega fyrir Miguel, en þá færðu þau sig upp fyrir Einhyrning meðfram Markarfljótsgljúfri. Ana segir að brekkurnar hafi verið það erfiða fyrir Miguel og því hafi þau oftast labbað upp þær. Þá hafi verið nauðsynlegt að hugsa um eitthvað annað, tala saman og grínast í börnunum. Madalena hafi einnig stundum farið úr vagninum þegar þau fóru hægt yfir og gengið með Miguel. „Maður þarf að vera mjög þolinmóður svo þetta gangi,“ segir hún.
„Þennan dag var ein stærsta brekkan og hún tók næstum allan seinni partinn,“ segir Mário, en samtals hækkuðu þau sig um tæplega 400 metra þangað til ákveðið var að tjalda á ný. Mário segir að þarna hafi verið gott dæmi um hvernig ekki var hægt að setja ákveðin markmið fyrir daginn. Þegar þau voru komin upp mestu brekkurnar, eftir um 20 km dagleið, hafi Miguel viljað stoppa og þá var það bara ákveðið.
Á þriðja degi var tekinn útúrdúr og Markárfljótsgljúfur skoðuð betur, en svo haldið í Hvanngil. Samtals um 25 km dagur. Mário segir að á þessum fyrstu dögum hafi þau verið heppin með vind og enginn dagur hafi verið slæmur, hins vegar hafi rignt að meirihluta tvo daga af þessum fyrstu dögum, en þá hafi skipt miklu að vera með góðan fatnað. Næsta vika var fjölskyldunni enn betri og var þá sól upp á hvern einasta dag.
Frá Hvanngili var farið yfir Mælifellssand og upp með Strút og svo alla leið að Strútslaug á tveimur dögum. Mário segir að þau hafi viljað skoða náttúrulaug og þó að það hafi reynst nokkuð strembið að komast að lauginni hafi það allt verið þess virði og börnin hafi verið sérstaklega ánægð að fá að fara ofan í. Á þessum kafla segir hann að þau hafi fylgt gönguslóðanum og mestmegnis þurft að ganga með hjólin og svo áfram daginn eftir af eða á hjólinu þangað til þau komust á veginn að Álftavatnskróki, en þriðju nóttina á þessum króki sínum gistu þau við Syðri-Ófæru.
Eins og þeir vita sem til þekkja er nauðsynlegt að vaða nokkrar ár á þessari leið og liggur því blaðamanni spurn hvernig slíkt hafi gengið með tvö börn, auka hjól og hjólavagn. Mário segir að þau hafi frá upphafi vitað af ánum. „Í skipulagsferlinu skoðaði ég hvernig ár þetta yrðu og hvort það væri mikið vatn í þeim. Ég vissi fyrir fram að nokkrar ár gætu orðið nokkuð erfiðar,“ segir hann.
Bæði voru þau með vaðskó og segir hann að án þeirra hefði þetta líklega orðið mjög erfitt. „Við þurftum að vaða flestar árnar þrisvar á mann og stundum nokkrar ár á dag,“ segir hann og bætir við: „Yfir fyrstu árnar vorum við ánægð og þetta var áhugavert og skemmtilegt. Ég viðurkenni alveg að í lokin var þetta hins vegar orðið aðeins leiðigjarnara,“ segir hann og þau hlæja bæði. Þau segjast aldrei hafa lent í neinu veseni við árnar og að vatnið hafi mest náð upp í hné hjá þeim.
Þegar komið var inn á Nyrðri-Fjallabaksleið var stefnan tekin á Landmannalaugar með tveimur næturstoppum og útúrdúr að Tungnaá á leiðinni. Í Landmannalaugum ákváðu þau að stoppa í þrjá daga og ganga um svæðið og skoða það betur. Mário segir að þarna hafi þau einnig bætt aðeins á matarbirgðirnar þótt þau ættu um vikuskammt aukalega, en upphaflega tóku þau með sér mat fyrir um 15 daga. Hann segir að það sem hafi í raun komið þeim mest á óvart á allri ferðinni hafi verið takmarkað úrval á þeim tveimur stöðum sem þau fóru um og höfðu gert ráð fyrir að geta fyllt á birgðirnar, en síðar stoppuðu þau í Úthlíð.
Eftir að hafa skoðað Ljótapoll og nágrenni Landmannalauga héldu þau Dómadalsleið/Landmannaleið til vesturs og segja þau bæði að það hafi verið versti malarkafli leiðarinnar, bæði hafi þar verið mikið ryk og talsverð umferð. Frá Vegamótum Landvegar og Dómadalsleiðar hélt fjölskyldan yfir Þjórsá og upp að Hólaskógi og þaðan í átt að Háafossi sem hafði verið einn af þeim stöðum sem þeim langaði að skoða frá því í upphafi ferðarinnar.
Gullfoss og Geysir voru einnig meðal staða sem átti að heimsækja og því var farið frá Háafossi um línuveg sem liggur um afréttir yfir Stóru-Laxá og svo að endingu að austurbakka Hvítár, eftir þriggja daga ferð frá Háafossi. Mário segir að þessi leið hafi verið sú næst erfiðasta í ferðinni, á eftir útúrdúrnum við Strútslaug. Þannig hafi verið stórgrýtt og þau hafi þurft að ganga með hjólin upp flestar brekkurnar. „En svo komum við að Gullfossi hinum megin frá og voru alveg ein þar. Þau komust svo niður með Hvítá og yfir hana á Brúarhlöðum og að Geysi. „Þetta var alveg ótrúlegt og við elskuðum þetta,“ segir hann þrátt fyrir allt vesenið.
Þau viðurkenna að upphaflega hafi þau horft til þess að komast jafnvel yfir Kjöl eða Sprengisand á þessu ferðalagi sínu, en að þeim hafi orðið ljóst að ekki væri tími til þess. Því hafi stefnan eftir Geysi og Úthlíð verið tekin á höfuðborgina og var þá spurning hvort fara ætti einhverjar bakleiðir eða hinn hefðbundna bílveg.
Að lokum ákváðu þau að fara upp frá Úthlíð, með viðkomu við Brúarskörð, og svo áfram norður fyrir Högnhöfða og inn á Hlöðuvallarveg og svo vestur og loks inn á Uxahryggjaveg og þaðan niður á Þingvelli, en samtals tók þessi leggur um fimm daga.
Síðasti leggurinn var svo að komast aftur til Reykjavíkur og segja þau bæði að það hafi líklegast verið erfiðasti dagurinn með krakkana, en þau hafi ekki alveg áttað sig á hversu mikil umferð var yfir Mosfellsheiðina og þó að þau hafi á nokkrum stöðum ná að fara á slóða meðfram veginum hafi þetta ekki verið skemmtilegur kafli.
Fjölskyldan varði svo þremur dögum í Reykjavík áður en haldið var heim og kíkti meðal annars í hvalaskoðun, og skoðuðu söfn um norðurljós og hvali.
„Á heildina voru krakkarnir mjög ánægð með ferðina og minnast reglulega á hana. Þetta hentaði þeim vel því við fjölskyldan ferðumst jafnan mikið, göngum og hjólum og þetta var þvi ekki nýtt fyrir þau,“ segir Mário. Ana minnist á að krakkarnir tali mikið um eldfjallasteina sem þau hafi leikið sér með þar sem þau stoppuðu reglulega á leiðinni og þá standi upp úr hjá þeim að hafa skoðað eldfjöll og gíga, eins og gígana Stút og Ljótapoll. Þá tali Madalena nú orðið þegar hún sér myndir úr ferðinni að hún vilji fara og hjóla í næstu ferð til Íslands.
Bæði Mário og Ana eru sammála um að Mælifellssandur og Strútslaug standi upp úr á ferðinni og bætir Mário því við að erfitt verði að velja næstu ferð til að geta toppað þessa. Í sumar hafi þau reyndar þegar áformað að fara í fimm daga ferð um Azoreyjar, en Mário mun vinna þar á næstunni. Annars sé sumarið óákveðið.
• Eitt barnafjallahjól með fjöðrun að framan
• Tvö sett af afturtöskum á hjólin
• Taska með tjaldi ofan á bögglaberann á öðru hjólinu
• Stýristöskur hvor á sitt hjólið
• Tvær minni framgaffalstöskur á annað hjólið
• Barnakerra og svefnpokar fest á kerrustöngina. Jakkar og sólarpanell ofan á kerrunni
• Vatnsbrúsar á hvert hjól
• Dúnsvefnpokar og dýnur
• Goretex-skór og -jakkar
• GPS-tæki sem getur sent skilaboð um gervihnött
• Tveir aukapedalar
• Viðgerðarsett, aukaslöngur og aukahlutir
• Tvö sett af fötum fyrir fullorðna
• Þrjú sett af fötum fyrir börnin
• Sólarpanell, myndavél, linsur, dróni, símar og snúrur/hleðslutæki
Matur
• Matur fyrir 15 daga í upphafi
• Mest léttur þurrmatur í pökkum
• Mjólkurduft
• Kartöflumjöl fyrir kartöflumús
• Alls konar hrísgrjónamatur
Þessi grein birtist fyrst í Hjólablaði Morgunblaðsins sem kom út á laugardaginn. Þar má finna fjölmargar greinar, ferðasögur og umfjallanir um málefni sem tengjast hjólreiðum. Hægt er að nálgast blaðið í heild hér að neðan.