Ákvað að halda áfram að lifa

Eygló Sigurðardóttir veit fátt skemmtilegra en að ferðast um á húsbíl. Nú ætlar hún að láta gamlan draum rætast og hyggst keyra ein um öll lönd Evrópu. 

Líf fjölskyldunnar umturnaðist í september 2017 þegar eiginmaður Eyglóar til þrjátíu ára tók sitt eigið líf.

„Það breyttist allt þá. Við þurftum að hugsa öll plön upp á nýtt,“ segir hún en þá voru börnin í grunnskóla, menntaskóla og elsti erlendis í læknanámi.

„Það var auðvitað gífurlegt áfall og fyrstu árin fóru í það að vinna úr því. Síðustu árin glímdi hann við kvíða og þunglyndi en maður bjóst samt ekki við þessu. Eftir þetta lærði ég meira á lífið og sé nú betur hvað andlegi þátturinn skiptir miklu máli í lífi fólks,“ segir hún.

„Ég breyti ekki því sem er liðið og ákvað að halda áfram lífinu. Það var ekki í boði að breiða yfir haus. Maður verður að halda áfram.“

Þetta var rétti tíminn

Lengi blundaði í Eygló að fara í ársferð á húsbíl um Evrópu. Nú er komið að því að láta þann draum rætast en Eygló mun leggja af stað í júní og hyggst heimsækja öll 44 Evrópulöndin, þó líklega verði Úkraína, Rússland og Hvíta-Rússland að bíða.

„Þetta var draumur minn lengi og hugmyndin var að fara árið 2018 og í mörg ár höfðum við hjónin planað svona ferð. En svo gerist það að hann tekur líf sitt og þá dó þessi hugmynd hjá mér. Svo fór stelpan í framhaldsskóla og þá hoppar maður ekki í svona ferð. Covid kom svo og ég þurfti að safna peningum,“ segir Eygló og segist hafa selt húsið, keypt minni íbúð og lagt fyrir í hverjum mánuði.

„Nú búa báðir strákarnir erlendis og dóttir mín er á leið í lýðháskóla í haust,“ segir Eygló og sá sér þá leik á borði að láta drauminn rætast.

„Þetta var rétti tíminn.“

Áskrifendur geta séð allan þáttinn hér. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert