Borgarstjóra var í dag afhentur undirskriftalisti þar sem skorað er á borgaryfirvöld að opna að nýju skotsvæðin á Álfsnesi.
2.703 höfðu skráð sig á listann með rafrænum skilríkjum þegar listinn var afhentur við Skothúsaveg en þar hóf Skotfélag Reykjavíkur starfsemi sína árið 1867.
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri veitti listanum viðtöku ásamt Þórdísi Lóu Þórhallsdóttur formanni borgarráðs og Líf Magneudóttur borgarfulltrúa. Dagný Huld Hinriksdóttir stóð fyrir söfnuninni ásamt eiginmanni sínum, Guðna Þorra Helgasyni. Dagný tjáði mbl.is að iðkendur hafi staðið fyrir undirskriftasöfnuninni en Guðmundur Kr. Gíslason úr Skotfélagi Reykjavíkur og Þórir Ingi Friðriksson úr Skotveiðifélagi Reykjavíkur voru einnig viðstaddir í dag.
Skotfélögin fluttu á Álfsnes árið 2008 en svæðinu þar var lokað í september í fyrra af umhverfis- og auðlindanefnd. Hefur Skotfélögunum verið gert að sækja um starfsleyfi á ný.
„Lokað var á þeim forsendum í fyrra að svæðið væri ekki inni á aðalskipulagi eða deiliskipulagi Reykjavíkurborgar. Svæðið er hins vegar komið inn á aðalskipulag og því skiljum við ekki hvers vegna við fáum ekki að opna aftur. Forsendur fyrir lokuninni eru brostnar að okkar mati,“ segir Dagný í samtali við mbl.is.
Dagný hefur keppt fyrir Íslands hönd í skotfimi og segist þekkja vel til víða erlendis. Hún segist því átta sig á því hvað þurfi að gera til að koma til móts við nágranna til dæmis varðandi hávaðamengun. „Það er hægt að gera ýmislegt til að draga úr hávaðamengun eins og manir og tré,“ en stuðning borgarinnar þurfi við þær framkvæmdir.
„Við gerum okkur alveg grein fyrir því að það heyrist í okkur en við erum boðin og búin til að koma til móts við nágranna okkar. Til dæmis var kvartað undan blýmengun og af þeim sökum höfum við ekki skotið blýskotum í eitt og hálft ár. Ég þekki það sem starfsmaður á svæðinu. Hægt er að minnka hljóðin með ýmsum hætti og það hef ég séð erlendis,“ segir Dagný og hún bendir á að svæðið sé ekki einungis fyrir þá sem stunda skotfimi heldur tengist þetta einnig skotveiði.
Fólk vilji æfa áður en það fer á veiðar og þarna séu einnig framkvæmd skotpróf fyrir skotvopnaleyfi og próf til hreindýraveiða. Um 10 þúsund manns komi á svæðið á ári og ekkert annað svæði taki við slíkum fjölda. Hvorki í Hafnarfirði né í Þorlákshöfn þar sem aðstaða sé til að skjóta.
„Einhvers staðar þurfum við að vera og eina og staðan er í dag erum við svæðislaus. Ekki er langt síðan við vorum í svipaðri stöðu en svæði okkar í Leirdal var lokað árið 2000 og við vorum án svæðis í átta ár en formleg opnun á Álfsnesi var 2008.
Eins og staðan er núna þá þarf ég sem Reykvíkingur að æfa í Þorlákshöfn af því að Reykjavíkurborg býður ekki upp á aðstöðu. Ég þarf að keyra 90 kílómetra fjórum sinnum í viku og það tekur vel í þegar bensínlíterinn er í 300 krónum. Það þarf að taka einhverja ákvörðun en ég geri mér grein fyrir því að það verði ekki gert fyrir kosningar,“ segir Dagný Huld í samtali við mbl.is.