Fyrsta íbúðarhúsnæðið til að hljóta slíka vottun

Gísli tekur á móti vottuninni síðastliðinn fimmtudag.
Gísli tekur á móti vottuninni síðastliðinn fimmtudag. Ljósmynd/Svansvottun

Fyrsta íbúðarhúsnæðið hlaut á fimmtudag svansvottun fyrir endurbætur þegar framkvæmdastjóri Svansins afhenti Auðnutré ehf. svansleyfi fyrir Þingholtsstræti 35 í Reykjavík.

Gísli Sigmundsson tók við leyfinu fyrir Auðnutré ehf. en hann keypti húsið í september árið 2020 með það að markmiði að fá svansvottun fyrir endurbæturnar. Hann lagði mikla áherslu að sýna vel frá ferlinu frá upphafi til enda, m.a. á Facebook þar sem hann birti viðtöl við verktaka og myndir.

Húsið er á þremur hæðum og stendur í einum elsta hluta borgarinnar. Allt byggingarefni sem féll frá húsinu var vandlega flokkað og komið í endurvinnslu og réttan úrgangsfarveg, að því er fram kemur í tilkynningu Svansins.

Burðarvirkið nýtt

Áður en hægt var að ráðast í endurbæturnar þurfti að framkvæma ákveðnar úttektir til þess að tryggja gæði endurbótanna, réttan farveg úrgangs og fleira. Á svansvottunin að tryggja að umhverfislegur ávinningur af verkefninu sé umtalsverður en í slíkum endurbótaverkefnum á mikil áhersla að vera lögð á að nýta það sem hægt er.

Þrátt fyrir að húsið hafi verið í lélegu ásigkomulagi þegar framkvæmdir hófust var burðarvirkið til að mynda nýtt áfram, ásamt gólfefni í forstofu og stiga innandyra, að því er fram kemur í tilkynningunni.

Var að nota sömu vörur og krafist var

„Það er virkilega gaman að segja frá því að þetta er fyrsta íbúðarhúsið sem hlýtur svansvottun samkvæmt endurbótaviðmiðunum en Ísland er sérstaklega framarlega þegar kemur að Svansvottuðum endurbótum þar sem flest slík verkefni eru hér á landi,“ sagði Rakel Elva Jónsdóttir framkvæmdastjóri Svansins við afhendingu vottunarinnar í dag.

„Þegar ég fór að skoða svansvottun betur sá ég að þær byggingarvörur sem mátti nota voru nokkurn vegin þær vörur sem ég var nú þegar að nota sem ýtti mér út í það að fara út í ferlið.

Framkvæmdin sjálf var ekki flóknari en hefðbundnar byggingarframkvæmdir og samskipti við helstu aðila sem komu að verkefninu gengu vel. Það var sérstaklega ánægjulegt hversu vel samstarfið við kaupendur hússins gekk en eftir að þau festu kaup á það unnum við náið saman að því að innrétta húsið,“ sagði Gísli.

Hér fyrir neðan má sjá eitt af myndskeiðunum sem Gísli birti á Facebook-síðunni sem hann hélt úti fyrir endurbæturnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert