Mælingar hafa sýnt kvikusöfnun á um 16 kílómetra dýpi austan við Fagradalsfjall en frá því að gosinu lauk hefur skjálftavirkni á Reykjanesskaganum verið talsverð. Um 5.400 skjálftar hafa mælst á árinu og hefur skjálftavirknin meðal annars verið bundin við Reykjanestá, svæði norður af Grindavík, Fagradalsfjall og Kleifarvatn. „Þetta virðist vera tiltölulega jafnt ferli, við fórum að sjá þetta fljótlega í lok gossins og hefur bara verið nokkuð stöðugt síðan,“ segir Benedikt Gunnar Ófeigsson, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, í viðtali við Morgunblaðið.
„Þetta er mjög dæmigert fyrir dýpri kvikusöfnun og við sjáum þetta mjög víða.“ Benedikt segir engar vísbendingar um að kvika sé að nálgast yfirborðið. „Þetta er bara tiltölulega stöðug þensla og þetta er ekkert að hreyfast til eða neitt slíkt.“ Þá útilokar hann ekki eldgos á Reykjanesskaganum. „Við vitum það ekki en já, á meðan við sjáum kviku vera að safnast fyrir og ef það stoppar ekki þá geri ég ráð fyrir að það endi með gosi og ekkert ólíklegt að við fáum fleiri gos á Reykjanesi á næstu áratugum.“
Spurður um þróun mála í Grímsvötnum segir Benedikt að þar geti gosið hvenær sem er. „Það hefur verið frekar rólegt í Grímsvötnum en við gerum nú ennþá ráð fyrir að Grímsvötn séu tilbúin í gos, þenslan er komin út fyrir þá stöðu sem hún var í fyrir síðasta gos,“ segir hann. „Vorið er alltaf frekar líklegur tími þegar það byrjar að bráðna en það getur gerst hvenær sem er og ekkert endilega víst að það gjósi í ár. Ef ég ætti að veðja á eldfjall þá myndi ég veðja á Grímsvötn næst, en við sjáum til.“
Þá segir Benedikt að þensla við eldstöðina Öskju sé stöðug. „Við höfum séð nokkuð stöðug þenslumerki í allan vetur og greinilegt að það hefur ekkert stoppað, en við getum ekkert sagt um hvernig framhaldið á því verður, það verður að koma í ljós.“ Askja er virkt eldfjall sem síðast gaus árið 1961. „Það þyrfti ekkert að koma á óvart þó það yrði eitthvað meira úr þessu en við verðum bara að fylgjast með og sjá hvernig þetta þróast,“ segir hann.