Vita ekki hvaðan hrosshausinn kemur

Aðalskrifstofa MAST á Selfossi.
Aðalskrifstofa MAST á Selfossi. mbl.is/Sigurður Bogi

Ekkert bendir til illrar meðferðar á hrossinu sem var aflífað og níðstöng með afskornum haus þess sett upp fyrir utan Skrautahóla 2 við Esjurætur fyrir helgi.

Að sögn Konráðs Konráðssonar, héraðsdýralæknis hjá Matvælastofnun (MAST), var hausinn rannsakaður á Tilraunastöð HÍ að Keldum. Miðað við niðurstöður þaðan var hrossið aflífað með skoti, en gat var í hausnum eftir byssukúlu.

„Það er ekkert athugavert við það og ekkert sem benti til þess að það hafi verið um illa meðferð að ræða á þessu hrossi,“ segir Konráð, sem tekur fram að mjög takmarkaðar upplýsingar fáist af því að skoða aðeins hausinn. 

Nafnlaus ábending barst íbúum Skrautahóla 2 um að níðstöngin hefði beinst að starfsemi Sólsetursins við Skrautahóla 4 og meintu andlegu og kynferðislegu ofbeldi þar.

Engin örmerking fannst

Örmerkja skal öll hross á Ísland til að hægt sé að rekja þau til eigenda sinna. Konráð nefnir að engin örmerking hafi fundist í hausnum og því eigi stofnunin erfitt með að átta sig á því hvaðan hrossið kemur. Oftast er örmerkingin reyndar sett í hálsinn á hrossum og því varla við því að búast að hún skyldi finnast í þessu tilfelli, bætir hann við.

Spurður segir Konráð að MAST hafi verið í sambandi við lögregluna vegna málsins en að stofnunin sé ekki að skoða önnur atriði í tengslum við það sem stendur. Hann bendir á að hlutverk MAST sé fyrst og fremst að athuga hvort velferð dýra sé ábótavant og að ekkert bendi til þess í umræddu máli. Konráð kveðst ekki muna eftir því að annað eins mál hafi komið upp frá því Landbúnaðarstofnun var sett á laggirnar og Matvælastofnun síðar stofnuð.

Borgin ekki fengið kvartanir

Eva Bergþóra Guðbergsdóttir, teymisstjóri samskiptasviðs hjá Reykjavíkurborg, sagði í samtali við mbl.is að heilbrigðiseftirliti borgarinnar hefðu ekki borist neinar kvartanir í tengslum við uppsetningu níðstangarinnar. Benti hún þess í stað á MAST og lögregluna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert