Jákvæð þróun í rekstri Árvakurs

Morgunblaðið, mbl.is og útvarpsstöðin K100 eru nú í eigin húsnæði …
Morgunblaðið, mbl.is og útvarpsstöðin K100 eru nú í eigin húsnæði eftir að hafa leigt um árabil. mbl.is/Árni Sæberg

Árvakur hf., útgefandi Morgunblaðsins, mbl.is og K100, var rekinn með 110 milljóna króna hagnaði í fyrra en árið á undan var tapið 75 milljónir. Móðurfélag Árvakurs, Þórsmörk ehf., var rekið með 186 milljóna króna hagnaði, en tap þess var 62 milljónir árið 2020. Tekjur Þórsmerkur námu 4,9 milljörðum króna og jukust um tæpar þrjú hundruð milljónir á milli ára.

Fyrirtækið allt undir eigin þaki

Annað dótturfélag Þórsmerkur, Ár og dagur ehf., keypti á dögunum húsnæðið þar sem ritstjórnarskrifstofur Árvakurs eru ásamt annarri starfsemi ótengds aðila. Það hús er í Hádegismóum 4 við hlið prentsmiðjuhúss samstæðunnar í Hádegismóum 2, sem er einnig í eigu dótturfélags Þórsmerkur og er 6.476 fermetrar að stærð.

Skrifstofuhúsið, sem er 3.852 fermetrar að stærð, var í eigu fasteignafélagsins Regins hf. Kaupverðið var 1.590 milljónir króna.

„Það er afskaplega ánægjulegt að fyrirtækið skuli aftur vera að fullu komið í eigið húsnæði eftir að hafa verið að hluta til í leiguhúsnæði eftir að það fluttist í Hádegismóa. Þetta treystir reksturinn og ég tel einnig að í Hádegismóum séu töluverð tækifæri til framtíðar. Svæðið er vaxandi og vel staðsett,“ segir Sigurbjörn Magnússon stjórnarformaður.

Rekstrarumhverfið enn mjög erfitt

Hagnaður Þórsmerkur fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta, EBITDA, nam 420 milljónum í fyrra en var 190 milljónir árið áður. Eignir um síðastliðin áramót námu tæpum 2,5 milljörðum króna en voru tæpir 2,4 milljarðar ári fyrr. Eiginfjárhlutfall var 35% í árslok 2021, en hafði verið 25% í árslok 2020.

„Reksturinn hefur verið að þróast í rétta átt undanfarin rúmlega tvö ár eftir mjög erfið ár þar á undan og umfangsmiklar hagræðingaraðgerðir sem nú eru að skila sér í jákvæðri afkomu. Bætt almennt efnahagsumhverfi hjálpar til, en rekstrarumhverfi fjölmiðla er þó enn mjög erfitt. Þeir keppa við erlenda aðila sem njóta margvíslegs samkeppnisforskots, auk þess að keppa við ríkið, en athygli vakti á dögunum að Ríkisútvarpið jók auglýsingatekjur sínar um fjögur hundruð milljónir króna á liðnu ári. Þeir peningar eru teknir af markaði þar sem einkaaðilar eru í samkeppni við ríkið.

En þó að hagræðingaraðgerðir og almennt bætt efnahagsumhverfi hafi átt ríkan þátt í bættri afkomu skiptir ekki síður máli að á hverju sem dunið hefur í rekstrinum hafa starfsmenn Árvakurs framleitt fyrsta flokks efni, fjölbreytt, vandað og skemmtilegt, jafnt fyrir blaðið, vefinn og útvarpið. Þetta er vitaskuld lykilatriði fyrir fjölmiðil sem selur þjónustu sína bæði til áskrifenda og auglýsenda,“ segir Haraldur Johannessen, framkvæmdastjóri og ritstjóri.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert