Langaði að grenja en drullaði sér aftur af stað

Mari Järsk kom, sá og sigraði í Bakgarðsmóti Náttúruhlaupa.
Mari Järsk kom, sá og sigraði í Bakgarðsmóti Náttúruhlaupa. Ljósmynd/Aðsend

Það eina sem Mari Järsk gat látið ofan í sig í gær eftir að hafa sigrað Bakgarðskeppni Náttúruhlaupa með glæsibrag um helgina var marengsterta sem skíðaþjálfarinn hennar færði henni. „Mér líður eins og maður sé búinn að vera á hörku djammi,“ segir hún. 

Eftir að hafa hlaupið 288 kílómetra (43 hringi sem hver var 6,7 kílómetra langur) hefur hún haft það náðugt heima hjá sér síðan hlaupinu lauk aðfaranótt mánudags og nýtt sér aðstoð vinkvenna sinna, sem stjana við hana. 

Keppn­in gekk út á að kepp­end­ur fengu klukku­stund til að hlaupa 6,7 kíló­metra hring. Ef hann klár­aðist fyrr gátu þeir hvílt sig áður en haldið var af stað í næsta hring, sem hófst á heila tím­an­um.

Mari hampar bikanum að loknu Bakgarðshlaupinu í Öskjuhlíð.
Mari hampar bikanum að loknu Bakgarðshlaupinu í Öskjuhlíð. Ljósmynd/Aðsend

Mari var orðið illt í fótunum síðustu 50 til 60 kílómetrana í hlaupinu en lét það ekki á sig fá. „Ég vissi að þetta líður allt hjá þannig að maður þorði ekki öðru en að halda áfram,“ segir hún í samtali við mbl.is.

Mótið var haldið í Heiðmörk í fyrra og þá vann Mari einnig eftir að hafa hlaupið „aðeins“ 167 kílómetra. Á þeim tímapunkti hætti maðurinn sem var í baráttu við hana um sigurinn og þar með var mótinu lokið. 

Vinkonurnar drifu hana áfram 

Spurð hvað hafi drifið hana áfram á meðan á mótinu stóð núna um helgina segir hún að trú hennar á sigur hafi haldið henni við efnið en að erfitt hafi verið að stoppa á milli hlaupa.

„Um leið og maður fór inn í hús þá langaði mig bara að grenja því ég var svo þreytt en vinkonur mínar voru allar hjá mér allan tímann. Þær gáfu mér ekki annað val. Það var bara að drulla sér aftur af stað og það væri ekki í boði að hætta fyrr en ég væri búin að ná mér á pallinn. Það var alltaf markmiðið, þannig að þær hjálpuðu mér mikið,“ segir Mari. Koffíntöflur til að halda hausnum skýrum, ásamt bætiefnum hjálpuðu einnig til, auk styrktaraðilanna sem snerust í kringum hana eins og „nýfætt barn“.

Ljósmynd/Aðsend

Stundar göngu- og hjólaskíði

Undirbúningur hennar fyrir Bakgarðshlaupið, sem var haldið í Öskjuhlíðinni, var heldur óvenjulegur því hún æfði gönguskíði í vetur, að minnsta kosti þegar veður leyfði, og tók þátt í hinum ýmsu skíðakeppnum. Segist hún hafa fengið „helling“ út úr því. Hún hljóp því lítið og aðallega þá með vinkonum sínum þegar hún var í stuði.

Á sumrin hefur hún stundað hjólaskíði, auk þess sem hún er skráð í Þríþrautardeild Breiðabliks. Með því að stunda fjölbreyttar íþróttir á borð við skíði, hlaup, sund og hjólreiðar segist hún ná að dreifa álaginu meira og ná sér í gott þol „í staðinn fyrir að hlaupa allan daginn og stúta líkamanum þannig“.

Draumurinn að komast til Tennessee

Árangur Mari er magnaður, hvað þá ef tekið er tillit til þess að hún tók þátt í sínu fyrsta hlaupamóti fyrir aðeins fjórum árum. Fram af því hafði hún að eigin sögn lítið hlaupið af viti, nema kannski til að fara út að skokka með hundinn.

Mari í góðum gír í Öskjuhlíð.
Mari í góðum gír í Öskjuhlíð. Ljósmynd/Aðsend

Næsta stóra keppnin sem Mari ætlar að taka þátt í verður hér á landi í október. Þar keppa þeir sem hafa staðið sig best í Bakgarðshlaupum síðustu tveggja ára. Sá sem ber sigur úr býtum í það skiptið mun ferðast til bandaríska ríkisins Tennessee og keppa við þá bestu í heiminum. Draumur hennar er að komast þangað.

Hún segist vera komin í annað til þriðja sætið í íþróttinni í heiminum í hópi kvenna, eftir árangurinn um helgina, og stefnir á toppsætið. Á heimslistanum situr hún í 22. sæti yfir bæði karla og konur.

Mari ásamt Þorleifi Þorleifssyni, sem lenti í öðru sæti.
Mari ásamt Þorleifi Þorleifssyni, sem lenti í öðru sæti. Ljósmynd/Aðsend

Betur sett en aðrir reykingamenn 

Myndir náðust af Mari með sígarettu í hendi er hún hvíldi sig á milli hlaupa í Öskjuhlíðinni. Spurð hvort hún þurfi ekki að hætta að reykja ætli hún sér að komast á toppinn í heiminum segist hún einfaldlega vera reykingakona.

„Ég trúi því að ég sé miklu betur sett en aðrir reykingamenn. Ég æfi þrjá tíma dag og geri allt öðruvísi hluti en annað fólk,“ greinir hún frá og segist ekki lengur vilja vera í felum með þetta. „Ef mig langar í sígarettu þá fæ ég mér bara sígarettu,“ bætir hún við og nefnir að læknarnir hennar segi hana vera stálhrausta. „Ég er með svo ógeðslega gott þol að ég finn engan mun þó að ég hafi alveg hætt í tvö ár.“

Mari bregður á leik.
Mari bregður á leik. Ljósmynd/Aðsend

„Með sterkan haus“

Mari, sem er 34 ára, fæddist í Lettlandi en flutti til Íslands fyrir 17 árum síðan. Spurð hversu lengi hún ætlar að hlaupa segist hún ætla að halda áfram svo lengi sem hún lifir og kveðst sérlega hrifin af Ultra-hlaupum. Einnig ætlar hún að halda áfram að stunda aðrar íþróttir þrátt fyrir að skíðaþjálfarinn hennar vilji að hún einbeiti sér að skíðum og setji stefnuna á Ólympíuleikana. Aðrir þjálfarar vilja frekar að hún einbeiti sér að þríþraut. 

„Ég veit að ég er með sterkan haus og það kemur manni til enda því líkaminn verður búinn miklu fyrr en þú átt von á,“ segir íþróttakonan öfluga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka