Líflegt að nýju á Þingvöllum

Ferðamenn eru aftur farnir að streyma í þjóðgarðinn.
Ferðamenn eru aftur farnir að streyma í þjóðgarðinn. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Líflegt var á Þingvöllum um páskana og hægt og bítandi hefur ferðamönnum fjölgað í þjóðgarðinum. Einar Á.E. Sæmundsen þjóðgarðsvörður áætlar að verði ferðamannafjöldi til Íslands 1,5 milljónir í ár megi búast við að hátt í milljón ferðamenn leggi leið sína til Þingvalla.

Árið 2017 komu 1,5 milljónir ferðamanna til Þingvalla, 2018 voru þeir 1,4 milljónir og 1,3 milljónir 2019 samkvæmt gögnum úr mælum sem Rögnvaldur Ólafsson og Gyða Þórhallsdóttir hafa verið með við veginn inn að Haki. Mikið hrap varð í fjölda ferðamanna 2020 þegar ferðamennirnir voru um 300 þúsund og rúmlega 435 þúsund 2021. Á töflunni til hliðar má sjá fjölda ferðamanna vetrarmánuðina janúar til mars síðustu fjóra vetur. Takmarkanir vegna kórónuveikinnar voru farnar að bíta í marsmánuði 2020, síðasta ár var vægast sagt mjög dauft, en í vetur hefur ferðamönnum fjölgað með hverjum mánuði.

Einar segir að spár ferðaþjónustunnar geri ráð fyrir mikilli fjölgun ferðamanna með rénun heimsfaraldurs og meðal annars sé reiknað með metfjölda skemmtiferðaskipa til Reykjavíkur í ár og margir farþegar þeirra leggi leið sína til Þingvalla. Hann segir þó ekki auðvelt að áætla fjölda ferðamanna fram í tímann. Enn séu möguleikar á nýjum faraldri Covid auk þess sem ferðatakmarkanir séu enn í gildi á sumum svæðum í heiminum og þróun stríðsins í Úkraínu geti líka haft áhrif á ferðagetu og ferðavilja fólks.

Nánar er fjallað um málið í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert