Litlar upplýsingar að fá um rannsóknina

Gígja Skúladóttir (t.v.) ásamt tvíburasystur sinni, Brynju Skúladóttur, sem var …
Gígja Skúladóttir (t.v.) ásamt tvíburasystur sinni, Brynju Skúladóttur, sem var einnig vistuð á meðferðarheimilið. Ljósmynd/Aðsend

Ekkert bólar á niðurstöðum rannsóknar um meðferðarheimilið Laugaland sem áttu að liggja fyrir undir lok síðasta árs. Þær konur sem hafa barist fyrir rannsókninni hafa litlar upplýsingar fengið varðandi framgang hennar og fátt er um svör þegar leitað er eftir þeim.

Þá hefur lítið sem ekkert utanumhald hefur verið um hópinn sem mætt hefur í viðtöl og býðst sálfræðiaðstoð ekki fyrr en að rannsókn lokinni. 

Þetta segir Gígja Skúladóttir, hjúkrunarfræðingur og ein þeirra kvenna sem var vistuð á meðferðarheimilið. Hún hefur verið í fararbroddi í baráttunni fyrir því að starfshættir heimilisins verði rannsakaðir.

Alvarlegar ásakanir um ofbeldi

Ingjaldur Arnþórsson rak meðferðarheimili fyrir stúlkur á aldrinum 13 til 18 ára á árunum 1997 til 2007. Var heimilið til húsa að Varpholti fyrstu árin en var síðar fært að Laugalandi um aldamótin.

Alvarlegar ásakanir um ofbeldi og harðræði af hálfu forstöðumannsins komu fram á starfstíma meðferðarheimilisins en yfirvöld aðhöfðust ekkert í málinu. Þess í stað lýsti þáverandi forstjóri Barnaverndarstofu, Bragi Guðbrandsson, yfir fullu trausti á Ingjaldi árið 2007.

Það var ekki fyrr en í febrúar á síðasta ári að ríkisstjórnin samþykkti loks tillögu Ásmundar Einars Daðasonar, sem þá var félagsmálaráðherra, þar sem Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála (GEV) var falið að rannsaka málið. Sú ákvörðun var tekin í kjölfar þess að sex konur stigu fram og lýstu bæði líkamlegu og andlegu ofbeldi af hálfu Ingjalds.

Rannsókn GEV átti að ljúka fyrir árslok 2021 en ekkert bólar enn á niðurstöðum.

Fá litlar upplýsingar um framvinduna

Gígja kveðst ekki hafa hugmynd um hver staða rannsóknarinnar sé núna.

„Við fáum engar upplýsingar og okkur er svarað ofboðslega seint og illa, ef okkur er þá svarað,“ segir hún í samtali við mbl.is, um samskipti GEV við konurnar sem hafa barist fyrir rannsókn málsins. Í þeim svörum sem þær hafa fengið kemur fram að smá tafir hafi orðið en að haft verði samband síðar. 

„En þau eru aldrei í sambandi. Það eru alltaf við sem þurfum að teygja allt úr þeim.“

Þá hafa einhver óformleg samskipti átt sér stað á samfélagsmiðlinum Messenger, sem Gígja telur bera vott um ófagleg vinnubrögð. 

Fá enga sálfræðiaðstoð

Að sögn Gígju varð hún einnig fyrir miklum vonbrigðum með hvað hópurinn, sem rannsóknin nær til, hefur fengið lítið utanumhald og finnst henni skjóta skökku við að ekki sé hægt að veita sálfræðiaðstoð í kjölfar viðtala líkt og þekkist í öðrum rannsóknum.

„Við höfum margar óskað eftir því en við fáum þau svör að það sé ekki hægt að mæta því raunar fyrr en eftir að niðurstöður rannsóknar koma.“

Þá telur hún upplýsingagjöf til kvennanna er varðar úrvinnslu upplýsinganna úr viðtölunum, ábótavant. Ekki megi heldur gefa upp hversu mörg viðtöl verði tekin eða við hverja er talað við.

„Það er bara svolítið eins og þetta komi okkur ekkert við.“

Ferlið komið á óvart

Þegar Ásmundur Einar var félagsmálaráðherra hét hann því að ganga úr skugga um að fjármagn yrði ekki vandamál við framkvæmd rannsóknarinnar. Þá ætlaði hann einnig að hvetja til þess að GEV myndi vinna málið eins hratt og mögulegt væri.

Að sögn Gígju hefur það komið henni verulega á óvart að rannsóknin skyldi tefjast svona en þegar ríkisstjórnin samþykkti tillögu ráðherra taldi hún mestu vinnuna vera að baki og að málið væri komið í höfn. Það reyndist þó ekki rétt.

Nýr ráðherra hefur nú tekið við félagsmálaráðuneytinu, Guðmundur Ingi Guðbrandsson. Gígja hefur ekki enn ekki haft samband við hann en hún segir næsta skref vera að bóka fund með honum til að ræða stöðuna.

„En þetta er ofboðslega leiðinlegt, af því að við erum búin að fara þennan hring og þurfa að fara hann aftur. Það er komin rosaleg þreyta, allavega í mig. Maður verður þreyttur þegar líður á tímann.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert