Tvær spennandi nýjar hjólakeppnir í boði í ár

Á leið sinni umhverfis Vestfirði munu keppendur hjóla 930 kílómetra …
Á leið sinni umhverfis Vestfirði munu keppendur hjóla 930 kílómetra með 14.500 metra hækkun á fjórum hjóladögum og fara bæði um malbikaða vegi sem og malarheiðar Ljósmynd/Rugile Kaladyt

Í sumar eru áformaðar á fimmta tug hjólakeppna hér á landi og fara nokkrar þeirra fram annaðhvort yfir nokkra daga eða skiptast niður í fleiri en eina keppni. Af öllum þessum keppnum eru tvær sem eru nýjar, eða allavega með nýju fyrirkomulagi. Báðar eiga þær það sameiginlegt að vera fjöldægra ofurhjólakeppnir, en eru þó mjög ólíkar.

Westfjord way challenge

Um mánaðamótin júní/júlí fer fram á Vestfjörðum glæný fjöldægra ofurhjólakeppni sem að stórum hluta verður hjóluð á malarvegum, eða jafnvel hálfgerðum fjallahjólavegum. Hver og einn keppandi á að hjóla 930 km leið með 14.500 metra hækkun (6,9 Hvannadalshnúkar), en um er að ræða fjórar tímamældar dagleiðir, sem þó eru farnar á fimm dögum, en hjólað er réttsælis um Vestfirði frá Ísafirði, auk þess sem farið er um Drangsnes og Skarðsströnd og Fellsströnd.
Westfjords way challenge er líklega ekki fyrir alla, en keppnin …
Westfjords way challenge er líklega ekki fyrir alla, en keppnin nær yfir fjórar dagleiðir, samtals 930 km leið með 14.500 metra hækkun. mbl.is

Ekki nóg með að þetta séu allt yfir 200 km dagleiðir, heldur þurfa keppendur að bera allan búnað með sér. Það mætti í raun líkja þessu við að taka daglega í þrjá daga eina Rift-keppni og hvílast svo í hálfan sólarhring og leggja svo af stað í fjórðu svona keppnina. Þetta er því ekki fyrir hvern sem er og var keppnin sérstaklega stíluð á erlenda keppendur, þó að þeir íslensku væru einnig hjartanlega velkomnir.

Tyler Wacker starfar hjá Háskólasetrinu á Ísafirði og rekur einnig lítið reiðhjólaverkstæði í bænum. Hann er einn þeirra sem koma að keppninni, en hún er hluti af stærra verkefni sem kallast Cycling Westfjords. Hann segir að skráning hafi gengið vel miðað við að þetta sé fyrsta ár keppninnar og hún þannig séð óþekkt úti í hinum stóra heimi.

Meðal áhugaverðra menningarstoppa sem keppendur fá að kynna sér á …
Meðal áhugaverðra menningarstoppa sem keppendur fá að kynna sér á leiðinni eru vestfirskar náttúrulaugar. Ljósmynd/Evan Ruderman

25 íslenskir keppendur

Horft hafi verið til þess að hámarksfjöldi yrði 100 manns, 22. apríl voru þegar 80 keppendur skráðir. Ljóst er að sá hópur Íslendinga sem hafa raunverulegan möguleika á að taka þátt og klára keppni sem þessa er ekkert rosalega stór. Tyler segir það því vera skemmtilegt að sjá að þegar hafi 25 landsmenn skráð sig til leiks, bæði konur og karlar.

Flestir keppendur koma þó frá Bandaríkjunum, en Íslandsvinurinn, ljósmyndarinn og áhrifavaldurinn Chris Buckard (á metið í einstaklingskeppni í Cyclothon og hefur hjólað þvers og kruss um Ísland) og ofurhjólastjarnan Lael Wilcox (mæli með að þið flettið henni upp á Google eða Youtube, ótrúleg afreksmanneskja) hafa verið dugleg að láta vita af keppninni á samfélagsmiðlum. Þau hjóluðu þessa leið ásamt fleirum í fyrra og var það meðal annars ástæðan fyrir því að keppninni var ýtt úr vör, en þau munu bæði taka þátt í keppninni í ár.

Ægifagurt landslag Svalvoga bíður keppenda á síðustu dagleiðinni.
Ægifagurt landslag Svalvoga bíður keppenda á síðustu dagleiðinni. Ljósmynd/Þráinn Kolbeinsson

Meðal Íslendinga sem stefna á þátttöku eru meðal annars Ingvar Ómarsson, margfaldur Íslandsmeistari í götu- og fjallahjólreiðum, Katrín Pálsdóttir þríþrautarkona sem hefur klárað fjölmarga járnkarla, María Ögn Guðmundsdóttir, margfaldur Íslandsmeistari í götu- og fjallahjólreiðum, og Bergur Benediktsson, sem meðal annars hefur klárað 563 km hjólakeppni í snjó í Alaska.

Nýjung til að kynnast stöðunum betur

„Já, við erum orðin nokkuð peppuð,“ sagði Tyler þegar Hjólablaðið náði tali af honum. Hann segir að keppnin hafi fengið mjög góðar viðtökur og að áhugi fólks hafi meðal annars beinst að nýjung sem kynnt var í tengslum við keppnina. Það var að hafa menningarstopp á leiðinni (e. cultural connections), en á hverri dagleið þurfa keppendur að stoppa á allavega tveimur fyrirfram ákveðnum stöðum á leiðinni þar sem þeim gefst tækifæri til að skoða náttúruna, söfn, sögulega staði o.s.frv., en keppnisklukkan er stoppuð á meðan. Segir Tyler að skipuleggjendurnir telji þetta fyrstu keppnina í heiminum sem bjóði upp á þessa hugmyndafræði.

Tyler segir marga af þeim ofurhjólurum sem hann hafi rætt við hafa haft á orði við sig að þótt þeir hafi jafnvel farið víða um heiminn til að keppa í keppnum sem þessari þá hafi þeir oft misst af því að kynnast almennilega þeim stöðum sem hjólað er um. Þetta væri eitthvað sem margir sæju eftir og hugmynd skipuleggjendanna væri að reyna að laga þetta vandamál.

Á ferð um Þingmannaheiði á sunnanverðum Vestfjörðum.
Á ferð um Þingmannaheiði á sunnanverðum Vestfjörðum. Ljósmynd/Ómar Smári Kristinnson

„Ef þetta er bara keppni færðu bara þá allra bestu í heiminum, en með þessu móti verður til breiðari hópur og við ættum að ná fleirum að,“ segir Tyler. Hann segist þess full viss að með þessu móti geti keppnin stækkað á komandi árum.

Tyler mun sjálfur ekki hjóla, enda verður líklega í nógu að snúast fyrir keppnisstjórann á meðan keppnin er í gangi. Spurður um þann hluta keppninnar eða þá dagleið sem hann sé spenntastur fyrir segir hann að það sé fjórða og síðasta dagleiðin. Þá sé hjólað frá Patreksfirði alla leið á Ísafjörð, meðal annars um Svalvoga, og skemmtilegt menningarstopp sé í Simbahöllinni á Þingeyri. „Þarna eru nokkrir af fáförnustu vegum landsins og hjólararnir eru alveg einir. Ég held að þetta verði æðislegt,“ segir hann, en síðasta dagleiðin hefur þá sérstöðu að ræst er á miðnætti frá Patreksfirði.

Iceland Cyclothon

Cyclothon er líklega sú hjólakeppni sem flestir Íslendingar þekkja. Keppnin fór af stað undir merkjum flugfélagsins WOW air, en eftir fall þess félags tók Síminn keppnina upp á sína arma. Ákveðið var að leggja keppnina af, meðal annars vegna skörunar á tímasetningu við kröfur Alþjóðahjólreiðasambandsins (UCI) um hvenær Íslandsmót ættu að fara fram. Nú hefur hins vegar hópur áhugamanna ákveðið að reyna að endurvekja þessa keppni, en þó með nokkuð nýjum formerkjum, þó grunnhugmyndin haldi sér, en ekki verður um eiginlega keppni að ræða í ár.

Birgir Fannar Birgisson er formaður Reiðhjólabænda, fjöldahreyfingar hjólafólks, og hefur leitt vinnu við að koma keppninni af stað á ný. Eins og flestir vita gekk keppnin út á að hjóla hringveginn (að mestu) um Ísland, annaðhvort einn í liði, fjórir í liði eða svo tíu í liði. Síðustu skiptin voru seinni tveir flokkarnir sameinaðir í átta manna lið. Keppnin varð fljótt gríðarlega vinsæl og þegar mest lét tóku um 1.300 manns þátt, bæði þeir sem voru mættir til þess að keppa um sæti, en ekki síður lið sem mættu til að takast á við þessa áskorun. Var þá oft um að ræða fyrirtækjalið eða vinahópa og hafði þetta þau áhrif að margir stigu sín fyrstu skref í hjólreiðum og varð keppnin þar með að stökkpalli margra inn í þessa íþrótt og lífsstíl.

Birgi Fannar Birgisson, formaður Reiðhjólabænda, og einn forvígsmanna um Iceland …
Birgi Fannar Birgisson, formaður Reiðhjólabænda, og einn forvígsmanna um Iceland cyclothon, en prufuútgáfa af þessari keppni fer af stað í sumar. mbl.is/Arnþór

Ekki einn stór hringur heldur nokkrir minni

Birgir segir að þetta sé stóra ástæðan fyrir því að þau sem nú standi á bak við Cyclothon, undir nafninu IcelandCyclothon, vilji halda keppninni við. „Þetta var alltaf hvatning fyrir fólk að fara út og byrja að hjóla,“ segir hann. „Þetta er stílað inn á þögla meirihlutann, þá sem eru ekki endilega alveg virkastir.“

Talsverða umgjörð þarf fyrir stóra keppni og segir Birgir að í ár sé það ekki hugmyndin. Í raun verður þetta ekki keppni í ár, heldur stórt samhjól. Hann tekur þó ekki fyrir að Cyclothon muni þróast aftur í átt að stærri keppni ef vel gangi.

Birgir segir stóran áhættuþátt í Cyclothon-keppnum hingað til hafa verið þá bíla- og hjólaumferð sem varð á þjóðvegi 1 vegna keppninnar. Þannig hafi í upphafi keppni verið langar raðir bíla og hjól inn á milli. Þetta er aðalástæða þess að ákveðið var að breyta um fyrirkomulag og verður þessi viðburður ekki einn samfelldur hringur, heldur mun á fyrri hluta leiðarinnar skiptast upp í nokkra minni hringi. Upphafsleggurinn verður reyndar með svipuðu sniði og áður, en þó reynt að notast við stíga frekar en Vesturlandsveginn út úr borginni. Farið verður upp Mosfellsheiði og niður í Hvalfjörð, en við Laxárbakka er stoppað og tíminn tekinn á keppendum.

Svo er keyrt upp í Borgarnes og þar verður aftur hópræsing og hjólaður hringur um sveitir Borgarfjarðar. Aftur er tíminn á þessum kafla tekinn og næst farið að rótum Holtavörðuheiðar og hjólað þar yfir með tímatöku. Því næst er haldið á Blönduós og hjólað þaðan yfir Þverárfjall á Sauðárkrók og svo tekinn hringur um Skagafjörð. Hugmyndin er svo að endurtaka svona hringi bæði í Eyjafirði og við Mývatn, en síðasta hópstartið yrði svo á Egilsstöðum þaðan sem hjólað yrði án stopps til Selfoss, niður á Eyrarbakka og Suðurstrandarveg og að lokum Krísuvíkurleið í Hafnarfjörð þar sem lokamarkið yrði, svipað og í Cyclothoninu áður.

Ný vídd í keppnisfyrirkomulagið

Birgir segir að með þessu fyrirkomulagi fái þeir sem ekki eru allra vanastir möguleika til að vera lengur með þeim sem betri eru auk þess sem ný vídd fáist í keppnisfyrirkomulagið. Þá telji hópurinn að þetta stuðli að meira öryggi, enda farið um fáfarnari vegi. Stefnt er að því að heildarkílómetrafjöldinn verði svipaður og í Cyclothon-keppnum hingað til, eða um 1.300 km, en Birgir segir að líklegt sé að hóparnir muni í nýja fyrirkomulaginu hjóla fleiri saman og því verði heildarkílómetrar hvers liðs líklega fleiri nú.

Stefnt er að því að ná að ljúka hringnum á innan við tveimur sólarhringum, en reynsla fyrri keppna er að fljótustu lið fari hringinn á um 40 klst. og meðaltíminn sé um 45 klst.

Hugmyndin nú er að fara af stað miðvikudaginn 22. júní klukkan 18:00 og klára fyrir klukkan 18:00 föstudaginn 24. júní. Hvert lið mun samanstanda af 5-8 manns.

Hjólakraftur hefur lengi verið stór hluti af Cyclothon-keppnunum og segir Birgir að ekki sé enn alveg ákveðið hvernig því verði háttað í ár, en að hann voni að þau mæti til leiks. Hann býst þó við að það verði minni hópur en áður, þar sem starfsemin hafi verið minni vegna Covid undanfarið.

Tilraunakeppni í ár

Birgir segir að markhópurinn núna sé vinnustaðahópar og vinahópar sem muni svo með tímanum draga fleiri með sér. Hann segist gera sér grein fyrir að hringferðin verði líklega nokkuð fámenn fyrsta árið, en það sé í raun æskilegt. „Það eru ekki nema 9-10 vikur fram að starti og þetta verður örugglega ekki fjölmennt í ár, en það er ekki endilega markmiðið. Þetta er ekki sett upp sem keppni, bara samhjól hjá stórum vinahópi,“ segir Birgir og bætir við að gaman væri ef 5-10 vinnustaðalið myndu enda með að skrá sig.

Þá segir hann að von sé á erlendum aðilum sem höfðu keypt sér miða til landsins fyrir keppnina áður en Síminn ákvað að leggja hana af. Hann ætli t.d. að vera í liði með fjölskyldu frá Suður-Afríku og Bandaríkjunum sem sé hér í nokkurra vikna fríi og ætli að verja tæplega viku í hjólaævintýrið.

Framhald Cyclothons mun svo ráðast af því hvernig vinsældirnar munu þróast, en Birgir segir að hópurinn á bak við þetta samhjól muni setja sig í samband við Hjólreiðasambandið í haust og ræða dagsetningar á næsta ári

Þessi grein birt­ist fyrst í Hjóla­blaði Morg­un­blaðsins sem kom út á laug­ar­dag­inn. Þar má finna fjöl­marg­ar grein­ar, ferðasög­ur og um­fjall­an­ir um mál­efni sem tengj­ast hjól­reiðum. Hægt er að nálg­ast blaðið í heild hér að neðan.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert