Verkefnið stærra en gert var ráð fyrir

Meðferðarheimilið var rekið á árunum 1997 til 2007.
Meðferðarheimilið var rekið á árunum 1997 til 2007. mbl.is/Ófeigur

Vinna við skýrslu Gæða- og eftirlitsstofnunar velferðarmála (GEV) um meðferðarheimilið að Laugalandi, áður að Varpholti, er langt komin og unnið er nú að loka samantekt. Ekki er tímabært að segja hver útgáfudagur skýrslunnar verður en vænta má að hún verði tilbúin fyrir sumarið. Verkefnið var umfangsmeira en stofnunin hafði gert sér grein fyrir.

Þetta kemur fram í svari GEV, sem barst í dag, við fyrirspurn Brynju Skúladóttur. Hún er ein þeirra kvenna sem var vistuð á meðferðarheimilinu og hefur barist fyrir því að ráðist verði í rannsókn á starfsháttunum sem þar voru viðhafðir 

Alvarlegar ásakanir um ofbeldi

mbl.is greindi frá því fyrr í dag að rannsókn um meðferðarheimilið að Laugalandi, áður Varpholti, sem var rekið af Ingjaldi Arnþórssyni á árunum 1997 til 2007, væri enn ekki lokið þrátt fyrir loforð um annað. Al­var­leg­ar ásak­an­ir um of­beldi og harðræði af hálfu for­stöðumanns­ins komu fram á starfs­tíma meðferðar­heim­il­is­ins en yf­ir­völd aðhöfðust ekk­ert í mál­inu. 

Á síðasta ári samþykkti ríkisstjórnin tillögu Ásmundar Ein­ars Daðason­ar, sem þá var fé­lags­málaráðherra, þar sem Gæða- og eft­ir­lits­stofn­un vel­ferðar­mála (GEV) var falið að rann­saka málið. Sú ákvörðun var tek­in í kjöl­far þess að sex kon­ur stigu fram og lýstu bæði lík­am­legu og and­legu of­beldi af hálfu Ingj­alds.

Gígja Skúladóttir, tvíburasystir Brynju sem var einnig vistuð á heimilinu, sagði í samtali við mbl.is að stofnunin hafi staðið sig illa í að veita upplýsingar um málið og fátt hafi verið um svör þegar þeirra var leitað. Kvaðst hún ekki hafa hugmynd um stöðu rannsóknarinnar, sem átti þegar að vera lokið.

Umfangsmeira verkefni en búist var við

Í svarinu sem barst í dag segir að um viðamikið verkefni sé að ræða og ákveðnir hlutar þess hafi reynst umfangsmeiri en gert var ráð fyrir í upphafi.

Mikilvæg lokavinnsla sé enn í gangi en að mikilvægt sé að leggja ríka áherslu  á að unnið sé eftir heilindum og fagmennsku. Fljótlega skýrist hvenær hægt verði að gefa út útgáfudag skýrslunnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka