Vörðuskóli verður eins og nýr

Vörðuskóli. Glæsileg bygging á Skólavörðuholti, teiknuð af Guðjóni Samúelssyni húsameistara. …
Vörðuskóli. Glæsileg bygging á Skólavörðuholti, teiknuð af Guðjóni Samúelssyni húsameistara. Í baksýn má sjá meistaraverk Guðjóns, Hallgrímskirkju mbl.is/sisi

Borgarráð hefur heimilað umhverfis- og skipulagssviði að bjóða út framkvæmdir vegna endurbóta og viðgerða á Vörðuskóla á Skólavörðuholti. Um er að ræða endurnýjun á gluggum, útihurðum og þaki. Þá verða loftræstikerfi endurnýjað sem og raflagnir. Kostnaðaráætlun er 370 milljónir króna. Áætlaður framkvæmdatími er apríl-desember 2022. Verkið hefur verið boðið út og verða tilboð opnuð í dag, 3. maí.

Vörðuskóli, sem hét til ársins 1974 Gagnfræðaskóli Austurbæjar, er skólabygging við Barónsstíg 34 í Reykjavík. Þar var áður gagnfræðaskóli og síðar varð skólinn hluti af Tækniskólanum allt til ársins 2019.

Gagnfræðaskólinn var oftast nefndur Ingimarsskólinn eftir fyrsta skólastjóra hans, séra Ingimar Jónssyni. Vörðuskóli er í næsta húsi sunnan við Austurbæjarskóla. Byggingin var teiknuð af Guðjóni Samúelssyni húsameistara ríkisins. Bygging hússins hófst árið 1947 og var það fullbyggt 1949. Húsið er steinsteypt og útveggir steinaðir og einangraðir að innan.

Húsnæðið er 3.230 fermetrar að stærð með íþróttasal og búningsklefum. Þetta var ein af síðustu byggingum sem Guðjón teiknaði, en hann lést árið 1950. Húsið stendur á Skólavörðuholti, steinsnar frá meistaraverki Guðjóns, Hallgrímskirkju. Reykjavíkurborg keypti Vörðuskóla 2020 í ljósi fjölgunar íbúa í nálægum hverfum.

Á vef Reykjavíkurborgar kemur fram að forsaga málsins sé sú að borgin og ríkið gerðu með sér samkomulag árið 2005 um kaup Reykjavíkurborgar á eignarhlut ríkisins og var gengið frá kaupsamningi árið 2008. Í honum var gert ráð fyrir að Reykjavíkurborg fengi bygginguna afhenta þegar lokið væri við fyrirhugaða viðbyggingu Iðnskólans á Skólavörðuholti. Sú viðbygging reis aldrei. Reykjavíkurborg hafði óskað eftir því að ríkið skilaði byggingunni svo nýta mætti það undir skólastarfsemi. Aðilar komist að samkomulagi í október 2020 að ganga að fullu frá kaupum og afhendingu. Kaupverð var um 260 milljónir króna.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert