Andlát: Ólafur Ólafsson, fyrrverandi landlæknir

Ólafur Ólafsson, fyrrverandi landlæknir.
Ólafur Ólafsson, fyrrverandi landlæknir. mbl.is/Ómar

Ólaf­ur Ólafs­son, fv. land­lækn­ir, lést í gær, 93 ára gam­all.

Ólaf­ur fædd­ist í Braut­ar­holti á Kjal­ar­nesi hinn 11. nóv­em­ber 1928, son­ur hjón­anna Ástu Ólafs­dótt­ur og Ólafs Bjarna­son­ar. Hann lauk stúd­ents­prófi frá Mennta­skól­an­um í Reykja­vík 1948 og kandí­dats­prófi frá lækna­deild Há­skóla Íslands 1957. Hann stundaði fram­halds­nám í lækn­is­fræði í Svíþjóð, Dan­mörku og Englandi og var viður­kennd­ur sér­fræðing­ur í lyflækn­ing­um, hjarta­sjúk­dóm­um, far­sótt­um og í embætt­is­lækn­ing­um.

1961 gekk hann að eiga Ingu-Lill Mari­anne (d. 2013) og varð þeim fimm barna auðið: Ástu Sól­veig­ar hjúkr­un­ar­fræðings, Ingi­bjarg­ar hjúkr­un­ar­fræðings, Bjarna Ólafs lög­reglu­full­trúa, Páls lög­manns og Gunn­ars Al­ex­and­ers hag­fræðings, en fyr­ir átti hann tvo syni, þá Ólaf héraðsdóm­ara og Grím Ólaf fram­kvæmda­stjóra. Barna­börn Ólafs eru 17 og barna­barna­börn níu.

Ólaf­ur fékk stöðu á Karólínska sjúkra­hús­inu í Stokk­hólmi 1961 og var þar aðstoðar­yf­ir­lækn­ir þegar hann þekkt­ist boð árið 1967 um að snúa heim til Íslands og verða fyrsti for­stöðumaður Rann­sókn­ar­stöðvar Hjarta­vernd­ar. 1972 hlaut hann skip­un sem land­lækn­ir. Þar starfaði hann í 26 ár á viðburðarík­um tím­um þar sem heil­brigðisþjón­usta í land­inu var í örri þróun, þar til hann lét af embætti 1998. Auk þess leysti land­lækn­ir af sem heilsu­gæslu­lækn­ir og gegndi ótal trúnaðar­störf­um öðrum.

Ólaf­ur sat í mörg­um nefnd­um og ráðum, m.a. í al­manna­varn­aráði, fasta­full­trúi Íslands hjá Alþjóðaheil­brigðis­stofn­un­inni (WHO) 1973-1998, formaður lækn­aráðs 1972-1998, formaður stjórn­ar Hjúkr­un­ar­skóla Íslands 1974-1986, formaður Fé­lags eldri borg­ara í Reykja­vík og ná­grenni 1999-2003 og formaður Fé­lags eldri borg­ara 2003-2005.

Ólaf­ur var sæmd­ur stór­ridd­ara­krossi hinn­ar ís­lensku fálka­orðu 1998, varð heiðurs­doktor við lækna­deild HÍ 1998 og heiðurs­fé­lagi í Lækna­fé­lagi Íslands 1998.

Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert
Loka