Andlát: Ólafur Ólafsson, fyrrverandi landlæknir

Ólafur Ólafsson, fyrrverandi landlæknir.
Ólafur Ólafsson, fyrrverandi landlæknir. mbl.is/Ómar

Ólafur Ólafsson, fv. landlæknir, lést í gær, 93 ára gamall.

Ólafur fæddist í Brautarholti á Kjalarnesi hinn 11. nóvember 1928, sonur hjónanna Ástu Ólafsdóttur og Ólafs Bjarnasonar. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1948 og kandídatsprófi frá læknadeild Háskóla Íslands 1957. Hann stundaði framhaldsnám í læknisfræði í Svíþjóð, Danmörku og Englandi og var viðurkenndur sérfræðingur í lyflækningum, hjartasjúkdómum, farsóttum og í embættislækningum.

1961 gekk hann að eiga Ingu-Lill Marianne (d. 2013) og varð þeim fimm barna auðið: Ástu Sólveigar hjúkrunarfræðings, Ingibjargar hjúkrunarfræðings, Bjarna Ólafs lögreglufulltrúa, Páls lögmanns og Gunnars Alexanders hagfræðings, en fyrir átti hann tvo syni, þá Ólaf héraðsdómara og Grím Ólaf framkvæmdastjóra. Barnabörn Ólafs eru 17 og barnabarnabörn níu.

Ólafur fékk stöðu á Karólínska sjúkrahúsinu í Stokkhólmi 1961 og var þar aðstoðaryfirlæknir þegar hann þekktist boð árið 1967 um að snúa heim til Íslands og verða fyrsti forstöðumaður Rannsóknarstöðvar Hjartaverndar. 1972 hlaut hann skipun sem landlæknir. Þar starfaði hann í 26 ár á viðburðaríkum tímum þar sem heilbrigðisþjónusta í landinu var í örri þróun, þar til hann lét af embætti 1998. Auk þess leysti landlæknir af sem heilsugæslulæknir og gegndi ótal trúnaðarstörfum öðrum.

Ólafur sat í mörgum nefndum og ráðum, m.a. í almannavarnaráði, fastafulltrúi Íslands hjá Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni (WHO) 1973-1998, formaður læknaráðs 1972-1998, formaður stjórnar Hjúkrunarskóla Íslands 1974-1986, formaður Félags eldri borgara í Reykjavík og nágrenni 1999-2003 og formaður Félags eldri borgara 2003-2005.

Ólafur var sæmdur stórriddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu 1998, varð heiðursdoktor við læknadeild HÍ 1998 og heiðursfélagi í Læknafélagi Íslands 1998.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert