Mál sem tengist frístundabyggð í Bláskógabyggð fór upp í Hæstarétt Íslands eftir þrjú ár í dómskerfinu og er á leiðinni aftur fyrir Landsrétt eða millidómsstigið.
Málið var upphaflega höfðað hinn 3. apríl árið 2019. Ásar, frístundabyggð, stefndi þá Einn á móti X ehf. til að greiða 45 þúsund krónur ásamt dráttarvöxtum. Ásar er félag eigenda frístundahúsa í Ásum í landi jarðarinnar Fells í Bláskógabyggð.
Samkvæmt lögum um frístundabyggð er umráðamönnum lóða undir frístundahús skylt að hafa með sér félagsskap um sameiginlega hagsmuni. Málsaðilar hafa um árabil deilt um skyldu Eins á móti X um að vera aðili að Ásum. Einnig kom fram í héraðsdómi að deilt hefði verið um fyrirætlan Ása að setja upp hliðloku á aðkomuvegi að frístundabyggðinni.
Einum á móti X var gert að greiða Ásum 45 þúsund krónur ásamt dráttarvöxtum vegna vangoldinna ársgjalda í Héraðsdómi Reykjavíkur hinn 12. febrúar 2020.
Dómur féll í málinu í Landsrétti hinn 15. október árið 2021 eftir að Einn á móti X ehf áfrýjaði dómi Héraðsdóms. Landsréttur lækkaði upphæðina og dæmdi Einum á móti X að greiða Ásum frístundabyggð 15 þúsund krónur. Einn á móti X var hins vegar sýknaður af kröfu um viðurkenndan lögveðrétt fyrir 15 þúsund krónum í fasteign í Bláskógabyggð.
Hæstiréttur vísaði í dag málinu til Landsréttar að nýju og hinn áfrýjaði dómur í Landsrétti er ómerktur. Í dómi Landsréttar var engin afstaða tekin til þess hvernig fara skyldi með málskostnað milli málsaðila í héraði.
„Ber það í bága við fyrirmæli h-liðar í 1. mgr. 114. gr. laga nr. 91/1991 um atriði sem tilgreina ber í dómi. Er þetta slíkur annmarki á hinum áfrýjaða dómi að óhjákvæmilegt er að ómerkja hann og vísa málinu til Landsréttar til munnlegs málflutnings og dómsálagningar að nýju, sbr. meðal annars dóma Hæstaréttar 9. febrúar 2012 í máli nr 405/2011 og 2. júní 2016 í máli nr. 479/2015,“ segir meðal annars í niðurstöðu dómsins.
Málskostnaður í Hæstarétti fellur niður.
Eflaust hnjóta lesendur um þær upphæðir sem hér eru í spilinu enda geta þær ekki talist háar í dómsmálum. Fyrst málið fór alla leið upp í Hæstarétt þá má telja líklegt að málið sé talið fordæmisgefandi varðandi félagafrelsi á Íslandi.