„Erfiður biti að kyngja“

Kyana Sue Powers.
Kyana Sue Powers. Ljósmynd/Aðsend

Hin bandaríska Kyana Sue Powers treystir nú á að áfrýjun hennar til Vinnumálastofnunnar skili árangri og tímabundnu atvinnuleyfi. Að öðrum kosti þarf hún að yfirgefa landið en Útlendingastofnun gefur henni þrjátíu daga til þess. 

Niðurstaða kærunefndar útlendingamála er sú að Powers fær ekki dvalarleyfi eins og RÚV fjallaði um í gær. Mál Powers hefur vakið þónokkra athygli hérlendis en hún er þekkt fyrir færslur á samfélagsmiðlum þar sem hún hefur gjarnan fjallað um dvöl sína hérlendis síðustu árin. 

„Ég hef reyndar ekki rætt við neinn um þennan úrskurð ennþá. Ég sá þetta bara í fréttum og gerði mér ekki grein fyrir að úrskurðurinn væri opinber gögn. Þetta er afar óheppileg niðurstaða og ég hef nú þrjátíu daga. Á sama tíma bíð ég eftir ákvörðun Vinnumálastofnunnar varðandi atvinnuleyfi,“ sagði Powers þegar mbl.is sló á þráðinn til hennar í dag. 

Áfrýjunin til Vinnumálastofnunnar er því hennar síðasti möguleiki og byggir á því að hér hafi hún stofnað fyrirtæki og hafið rekstur. Hún vonast eftir því að niðurstaða í því máli liggi fyrir á næstu þrjátíu dögum eða áður en hún þarf að yfirgefa landið samkvæmt fyrirmælum Útlendingastofnunnar. 

Kyana Sue Powers og tónlistarmaðurinn Tom Hannay á frumsýningu í …
Kyana Sue Powers og tónlistarmaðurinn Tom Hannay á frumsýningu í Bíó Paradís í fyrra. Ljósmynd/Grétar Guðmundsson

„Ég er vongóð og verð að vera það. Við lögðum fram ný gögn þegar málinu var áfrýjað. Vonandi getur Vinnumálastofnun komist að niðurstöðu áður en þessir þrjátíu dagar eru liðnir. Það væri afar slæmt að þurfa að yfirgefa Ísland því ég hef ekki nokkra hugmynd um hvert ég myndi fara. Heimili mitt er á Íslandi og ég veit því ekki hvert ég ætti að fara ekki frekar en þú ef þér væri gert að yfirgefa Ísland. Hér eru allar mínar eigur og ég hef búið hér í íbúð með húsgögnum. Ég hef ekki búið í ferðatösku á Íslandi.“

Reynir að hugsa á jákvæðum nótum

Biðin tekur skiljanlega á en Powers segir að hún hefði aldrei verið sátt nema hún myndi leita allra leiða til að fá að dvelja á Íslandi. 

„Þetta ferli hefur tekið tilfinningalegan toll en málinu er ekki lokið. Við höldum áfram að berjast enda gæti ég ekki hugsað mér að yfirgefið landið án þess að leggja allt í sölurnar.  Ég reyni að hugsa á jákvæðum nótum. Vonandi eiga einhverjar breytingar eftir að verða á þessu kerfi því ég er ekki sú eina sem vil búa hér áfram og er í ferli sem þessu. En það fólk hefur ekki rödd en ég er svo lánsöm að geta deilt minni reynslu.  Ég vona því að barátta mín gegn kerfinu muni skila einhverju jákvæðu fyrir fleiri en mig. 

Auk þess vil ég meina að ég hafi látið gott af mér leiða fyrir Ísland. Ég hef vakið athygli á landinu á samfélagsmiðlum og það hefur skapað tekjur fyrir ferðaþjónustuna. Engu að síður er unnið að því að senda mig úr landi. Ég átta mig á því að það er ekki persónulegt en er engu að síður erfiður biti að kyngja.“

Íslendingar hafa sýnt mikinn stuðning

Powers segist eiga gott bakland á Íslandi. „Ég á gott bakland hérlendis og vinir mínir hér eru eiginlega eins og fjölskylda mín. Þau hafa tekið vel á móti mér og ég finn einnig fyrir stuðningi í gegnum samfélagsmiðlana. Íslendingar hafa sýnt mér mikinn stuðning í langflestum tilfellum. Auk þess er ég heppin með lögfræðing sem sér alfarið um þessi mál enda er ég ekki inni í öllu sem er í gangi. Lögfræðingurinn minn á mikið hrós skilið,“ sagði Kyana Sue Powers í samtali við mbl.is í dag.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert