Jóhann Ólafsson
„Þetta er töluvert meiri hækkun en við bjuggumst við,“ segir Drífa Snædal, forseti ASÍ, en peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að hækka vexti bankans um eina prósentu.
„Við bjuggumst við einhverri hækkun en heilt prósentustig, það er mjög vel í lagt,“ segir Drífa. Meginvextir bankans, vextir á sjö daga bundnum innlánum, verða því 3,75%.
Hún segir þetta koma beint við pyngjuna á heimilum landsins í formi hækkunar á húsnæðislánum sérstaklega.
„Að auki er dýrtíð í landinu, með hækkun á vöruverði, bensíni og mat,“ segir Drífa og bætir við að stjórnvöld hér á landi skili auðu á meðan stjórnvöld um heim allan séu að reyna að bregðast við þeim aðstæðum sem uppi eru.
„Það bólar ekkert á því hér á landi og við höfum kallað eftir því í marga mánuði að stjórnvöld bregðist við með lækkun vörugjalda eða einhvers slíks,“ segir Drífa.
Að sögn Drífu muni þessar hækkanir hafa áhrif á kjarasamninga, sem eru lausir í haust. „Öll spjót standa á stjórnvöldum að bregðast við þessu.“