Óskiljanlegt að lögregla ætli ekki að sekta

Nagladekk valda mikilli svifryksmengun. Samkvæmt Umhverfisstofnun Evrópu deyja tugir manna …
Nagladekk valda mikilli svifryksmengun. Samkvæmt Umhverfisstofnun Evrópu deyja tugir manna árlega vegna mengunarinnar á Íslandi og hundruð þúsunda í Evrópu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ekki er réttlætanlegt að keyra á negldum hjólbörðum á höfuðborgarsvæðinu á þessum árstíma. Nagladekk valda mikilli svifryksmengun sem er afar hættuleg og dregur fólk jafnvel til dauða, þó erfitt geti reynst að sanna hvert tilvik.

Þetta segir Ágústa Þóra Jónsdóttir, varaformaður Landverndar, og bætir við að óskiljanlegt sé að lögreglan ætli að sleppa því að sekta ökumenn vegna aksturs á nagladekkjum.

60 dauðsföll árlega á Íslandi

Árið 2020 áætlaði Umhverfisstofnun Evrópu að rekja mætti um 60 ótímabær dauðsföll á Íslandi árlega til loftmengunar, öll vegna svifryks. Alls gerði stofnunin ráð fyrir 417 þúsund ótímabærum dauðsföllum í 41 Evrópulandi vegna slíkrar mengunar. 

Ólöglegt er að aka um á bifreiðum með neglda hjólbarða frá og með 15. apríl til og með 31. október, nema þess sé þörf vegna akstursaðstæðna, eins og segir í gildandi reglugerð.

Fyrr í dag tilkynnti lögreglan á höfuðborgarsvæðinu að ökumenn bifreiða á nagladekkjum yrðu ekki sektaðir í þessari viku. Enginn snjór er þó sjáanlegur á höfuðborgarsvæðinu og eru göturnar auðar. Tæpar þrjár vikur eru liðnar frá 15. apríl.

Aukin hætta á hjartaáföllum

„Málið er að það er ekki snjór á vegunum og ég skil ekki alveg af hverju þessi ákvörðun er tekin, af því að þetta hefur mjög slæm áhrif á loftgæði á hverjum einasta degi. Hvern einasta dag sem þú bætir við á nagladekkjum ertu að setja út litlar agnir í loftið sem valda skaða hjá fólki og það er vísindalega sannað,“ segir Ágústa.

Hún bendir á að margir geri sér ekki grein fyrir hve mengandi nagladekk eru en þau valda raunverulegum skaða og stuðla m.a. að auknum dauðsföllum. Nefnir hún til að mynda aukna hættu á hjartaáföllum.

Í því samhengi finnst henni athugavert að lögreglan taki þá sem kjósa að keyra um á nagladekkjum fram fyrir þann hóp fólks sem er í hættu vegna mengunarinnar sem af þeim hlýst.

„Af hverju er lögreglan allt í einu komin í það sæti að geta sett lög? Eru þeir kjörnir í það? Það eru lög sem banna okkur að gera þetta og það er ástæða fyrir því, vegna þess að þetta veldur mengun.“

Betra að sleppa þeim

Ef ástandinu núna svipaði til þess sem var uppi í febrúar væri hægt að réttlæta nagladekk, en ekki í þeim veðurfarsaðstæðum sem við sjáum núna á höfuðborgarsvæðinu, jafnvel þó það falli smá snjór á næstu vikum, segir Ágústa.

Auk þess segir hún góð vetrardekk í mörgum tilfellum geta verið betri en gömul nagladekk, sem geti jafnframt veitt falskt öryggi. Því sé betra að sleppa þeim.

„Ef þú ert hræddur um að vera ekki öruggur þá ættirðu bara að halda þig heima, í staðinn fyrir að menga fyrir alla aðra sem eru á höfuðborgarsvæðinu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert