Skjálftahrina virðist hafa hafist undir eða við Kleifarvatn síðdegis í dag. Virðast skjálftarnir eiga upptök sín á töluverðu dýpi, undir norðurhluta vatnsins.
Tveir stærstu skjálftarnir riðu yfir um miðnætti og mældust þeir 2,9 og 3,4 að stærð, samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofunni, og varð þeirra meðal annars vart á höfuðborgarsvæðinu.
Bryndís Ýr Gísladóttir, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, segir um 400 skjálfta hafa mælst síðasta sólarhring.
Hún segir þó engin merki vera um að kvika sé að færast nær yfirborði en að áfram verði fylgst með gangi mála.
Álíka magn af kviku og kom upp í eldgosinu í Geldingadölum hefur nú safnast fyrir í jarðskorpunni á nýjan leik undir Reykjanesskaga við Fagradalsfjall, eins og fjallað var um í Morgunblaðinu í gær.
Er því staðan nokkuð nálægt þeirri sem var uppi rétt fyrir eldgosið sem hófst á síðasta ári, að því er Halldór Geirsson jarðeðlisfræðingur sagði í samtali við blaðið.
Mælingar á Reykjanesskaga gefa til kynna að kvikusöfnun sé á 16 kílómetra dýpi á víðfeðmu svæði austan við Fagradalsfjall. Að sögn Halldórs gæti ótrúlegt magn af kviku safnast fyrir á þessum stað, sem er við mót möttuls og jarðskorpu, án þess að hún komi þó upp á yfirborðið.