Maðurinn ekki starfandi á Heilbrigðisstofnun Vestfjarða

Aðsetur landlæknisembættisins við Barónsstíg.
Aðsetur landlæknisembættisins við Barónsstíg. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Landlæknisembættið er að einhverju leyti bundið því að niðurstaða sé komin í mál er varðar lækni á Vestfjörðum sem ákærður er fyrir ofbeldi gegn konu sinni og börnum, að sögn Kjartans Hreins Njálssonar, aðstoðarmanns landlæknis.

Læknismenntaður karl­maður hef­ur verið ákærður af lög­reglu­stjór­an­um á Vest­fjörðum fyr­ir of­beldi og hót­an­ir yfir sjö ára tíma­bil í garð eig­in­konu sinn­ar, en hann er meðal ann­ars sagður hafa hótað henni líf­láti, en nokk­ur brot­anna ná til tíma­bils þegar kon­an var ólétt.

Þá er maður­inn einnig ákærður fyr­ir lík­am­legt og and­legt of­beldi gegn þrem­ur dætr­um þeirra yfir sama tíma­bil. 

Gylfi Ólafsson, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða, staðfestir við mbl.is að maðurinn sem ákærður er hafi aðeins starfað í undantekningatilvikum frá árinu 2013 og ekkert frá því árið 2020, en maðurinn hafi verið búsettur á Ísafirði.

Kjartan Hreinn segir í samtali við mbl.is að landlæknisembættið fái ekki upplýsingar um ákæru sem þessa og viti ekki hver hinn ákærði sé. Embættið leitar upplýsinga um manninn.

Kjartan Hreinn Njálsson, aðstoðarmaður Landlæknis.
Kjartan Hreinn Njálsson, aðstoðarmaður Landlæknis. Ljósmynd/Aðsend

Ákæran beinist að einkalífi mannsins

„Að einhverju leyti erum við bundin því að það sé komin niðurstaða í þetta mál hvað varðar okkar úrræði,“ segir Kjartan.

„Við reynum að komast að því um hvað er að ræða svo við séum alla vega miðvituð um það. Akkúrat núna reynum við að fylgjast bara með málinu, en það gæti vel breyst.“

„Þetta mál varðar ekki hans störf á heilbrigðisstofnun eða eitthvað þannig. Þetta virðist gerast í hans einkalífi samkvæmt ákærunni. Hins vegar virðist þetta varða notkun lyfja,“ sem Kjartan segir vissulega að komi landlækni beint við. 

„Eftir því sem ég best veit er þessi einstaklingur ekki starfandi sem læknir, eða að minnsta kosti ekki vinnandi á heilbrigðisstofnun. Ef hann er með starfsleyfi þá sannarlega heyrir hann undir okkar eftirlit sem heilbrigðisstarfsmaður,“ segir Kjartan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert