Svekktur út í sjálfan sig vegna gangs útboðsins

Sigurður Ingi segir ráðgjöf hafa verið ófullnægjandi.
Sigurður Ingi segir ráðgjöf hafa verið ófullnægjandi. Ljósmynd/Ágúst Ólíver

Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra og formaður Framsóknar, segir mikilvægt að Ríkisendurskoðun rannsaki framkvæmd útboðsins á 22,5% hlut ríkisins í Íslandsbanka, ekki síst í ljósi þess að stór orð hafi fallið, bæði frá stjórnmálamönnum og sérfræðingum.

Sigurður Ingi er gestur Karítasar Ríkharðsdóttur í Dagmálum þar sem hann ræðir málefni sveitarfélaga í aðdraganda sveitarstjórnarkosninga og landsmálin sem frambjóðendur hafa kvartað yfir að hafi þvælst fyrir kosningaumfjöllun.

Sigurður Ingi segir að Ríkisendurskoðun hljóti að vera hafin yfir allan vafa um að geta rannsakað það sem hún vill rannsaka með óháðum hætti. Auk þess hafi fjármálaeftirlit Seðlabankans ríkar heimildir.

Það sem Sigurður Ingi segir að hafi farið úrskeiðis er að söluaðilar hafi selt aðilum sem ekki er hægt að kalla kjölfestufjárfesta eða stóra fagfjárfesta.

„Það stóð ekki til, varðandi þessa sölu,“ segir Sigurður Ingi og bætir við að aðferðin hafi alls ekki verið kynnt þannig að slíkt væri mögulegt. Hann segir ábyrgðina um að hafa uppi varnaðarorð um þessa möguleika klárlega liggja hjá þeim sem ráðlögðu ríkisstjórninni í ferlinu.

„Við erum ekki öll sérfræðingar í hvernig á að framkvæma svona útboð. Ég er það ekki og ég er svekktur út í sjálfan mig, að þetta hafi gerst með þessum hætti, og ég býst við að þannig sé farið með okkur öll sem samþykktum þetta ferli eftir þá ráðgjöf sem að við fengum. Þess vegna segi ég að sú ráðgjöf hafi ekki verið nægilega góð.“

Hann segir að hefði ríkisstjórnin ætlað sér að víkja frá ráðgjöf Bankasýslunnar hefði hún þurft góðar röksemdir til þess. „Þá er augljóst mál að við hefðum tekið völdin í okkar hendur og tekið nýja ákvörðun.“

Áskrifendur geta séð þáttinn í heild sinni hér.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert