Vill kanna möguleika á að flytja MK í Smárann

Kort/mbl.is

Theodóra S. Þorsteinsdóttir, bæjarfulltrúi og oddviti Viðreisnar í Kópavogi, hefur lagt fram þá tillögu við bæjarráð Kópavogsbæjar að það hefji viðræður við mennta- og barnamálaráðuneytið, Menntaskólann í Kópavogi (MK) og Breiðablik um að skoða kosti þess að flytja MK í Smárann. Bæjarráð samþykkti með fimm atkvæðum að vísa erindinu til frekari rýni bæjarstjóra.

„Þetta kemur til vegna þess að það hafa komið fram óskir hjá Menntaskólanum í Kópavogi um að byggt verði íþróttahús á svæðinu,“ segir Theodóra og bætir við að það gæti reynst erfitt að koma slíku húsi fyrir þar sem þröngt sé um skólann þar sem hann er núna.

Smárinn frekar en Digranes

Þá segir Theodóra að gerð hafi verið valkostagreining um tvær mögulegar leiðir borgarlínunnar um Kópavog. Þar hafi niðurstaðan verið sú að það henti betur að borgarlínan fari fram hjá Smáranum, um Hafnarfjarðarveg og Fífuhvammsveg, en um Digranesveg.

„Þá fer hún ekki fram hjá MK eins og einhverjir voru að gera sér væntingar um,“ segir hún.

„Þess vegna komum við fram með þá tillögu að við myndum mögulega skoða það að færa MK niður í Smára og slá þannig tvær flugur í einu höggi, sem sagt betra aðgengi að íþróttasvæðinu og aðgengi að borgarlínunni.“ Íþróttasvæði Breiðabliks myndi þá nýtast nýrri afreksíþróttabraut sem stofnuð hefur verið við MK.

Ef úr þessu yrði þyrfti að byggja húsnæði undir skólann. „Þetta er alls ekkert óraunhæf tillaga. Það væri hægt að skoða það að rífa gamla stúku sem er við Kópavogsvöllinn og byggja þar eitt mannvirki sem væri bæði skóli og stúka. Það er ein hugmyndin.“

Vill hugmyndasamkeppni

Theodóra segist vilja að sett verði á fót hugmyndasamkeppni um það hvernig hægt væri að koma fyrir menntaskóla í Smáranum, tengja svæðið við borgarlínuna, endurskoða aðstöðuna fyrir frjálsar íþróttir og jafnvel byggja námsmannaíbúðir.

Hún segist hafa rætt við skólameistara MK, Guðríði Arnardóttur, áður en hún lagði tillöguna fram. Hún hafi ekki viljað gera það ef skólastjórnendur hefðu sagt þvert nei við tillögunni.

Nánar er fjallað um málið í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert